Samninganefndir Flugfreyjufélags Íslands og Icelandair hafa verið boðaðar til fundar í Karphúsinu klukkan 8:30 í fyrramálið. Staðan í viðræðunum er afar viðkvæm samkvæmt heimildum mbl.is.
Ellefu tíma samningafundi lauk án niðurstöðu skömmu eftir klukkan eitt í nótt og boðað var til fundar að nýju klukkan 17 síðdegis. Honum var síðan frestað á síðustu stundu eftir að ríkissáttasemjari féllst á beiðni samninganefndar Flugfreyjufélagsins þess efnis.
Samninganefndir vinna í kapp við tímann en Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, sagði í bréfi sem hann sendi öllum starfsmönnum Icelandair fyrir um 10 dögum að langtímasamningar við flugstéttir yrðu að liggja fyrir áður en fundurinn fer fram.
Samningar hafa náðst við flugmenn og flugvirkja hjá Icelandair. Tilboð samninganefndar Icelandair felur í sér 40% kjaraskerðingu að sögn samninganefndar flugfreyjufélagsins.