Skóflustunga að 74 nýjum leiguíbúðum sem Bjarg íbúðafélag byggir við Bátavog 1, á Gelgjutanga við Vogabyggð, verður tekin í dag.
Nú þegar er Bjarg með yfir 200 íbúðir í útleigu á þremur ólíkum stöðum, í Móavegi, Grafarvogi, í Urðarbrunni, Úlfarsárdal og í Asparskógum á Akranesi.
Þá eru framkvæmdir við á þriðja hundrað nýjar íbúðir komnar vel á veg og hátt í 500 íbúðir eru í hönnunarferli, samkvæmt tilkynningu frá Bjargi.
Næstu afhendingar Bjargs eru á eftirfarandi stöðum í Reykjavík seinna á þessu ári; í Silfratjörn í Úlfarsárdal, í Hraunbæ og í Hallgerðargötu við Kirkjusand. Þá eru einnig afhendingar á næstu mánuðum á íbúðum Bjargs á Akureyri og í Þorlákshöfn.
Byggingarfélagið Jáverk mun sjá um byggingu fjölbýlishúsanna við Bátavog. Verkfræðistofa Reykjavíkur sér um verkfræðihönnun og arkitekt er T.ark arkitektar.
Bjarg er húsnæðissjálfseignastofnun, stofnuð af ASÍ og BSRB. Félagið er rekið án hagnaðarmarkmiða og er ætlað að tryggja tekjulágum einstaklingum og fjölskyldum á vinnumarkaði aðgengi að öruggu íbúðarhúsnæði í langtímaleigu.