„Eins djöfullegt og hugsast getur“

Slökkviliðsmaður að störfum við gróðurelda. Mynd úr safni.
Slökkviliðsmaður að störfum við gróðurelda. Mynd úr safni. mbl.is/Júlíus

Um hundrað manns unnu að því að hemja og slökkva gróðurelda sem loguðu í Norðurárdal í gær og í nótt, þegar mest lét.

„Þarna voru björgunarsveitir og allur okkar tiltækur mannskapur, auk hátt í tuttugu slökkviliðsmanna frá Akranesi og tæplega tíu slökkviliðsmanna frá Brunavörnum Suðurnesja. Svo voru þarna bændur með haugsugur sem voru tilbúnir að bregðast við,“ segir Bjarni Þorsteinsson, slökkviliðsstjóri Borgarbyggðar, í samtali við mbl.is.

Flæmdist niður um allt

Þegar blaðamaður náði tali af Bjarna nú á ellefta tímanum var hann að reyna að festa svefn eftir mjög annasama nótt, en slökkvistarfi lauk í morgun.

Hann segir enga leið að sjá hvar eldurinn átti upptök sín. 

„Hann flæmdist náttúrulega niður allt og það er erfitt að gera sér grein fyrir því hvar þetta byrjar,“ segir Bjarni og bætir við að aust-norðaustanvindátt hafi ríkt í gær. 

„Hann var mjög hægur og lægði verulega í nótt. Það var nánast alveg logn.“

Frá slökkvistarfi við gróðurelda í Borgarbyggð. Mynd úr safni.
Frá slökkvistarfi við gróðurelda í Borgarbyggð. Mynd úr safni. Theodór Þórðarson

Ekki búnir til úr neinu kornflexi

Eldurinn var mest í kjarri og mosa.

„Þetta er eins djöfullegt og hugsast getur, að fá eld í þetta. Það eru um þrjú þúsund ár síðan talið er að Grábrók hafi gosið síðast. Það má því gera ráð fyrir að mosinn sé ekki mikið yngri en það, en hann er yfirleitt um 20 sentimetra þykkur, og meira en það sums staðar. Svo er þetta bara kjarr og lyng og þess konar gróður.“

Ekki var hægt að komast að eldinum með bílum heldur þurfti að ganga í mjög úfnu og leiðinlegu hrauni að sögn Bjarna. Slökkvibúnað þurfti því að bera að svæðinu og leggja þurfti lagnir að eldinum til að dreifa á hann slökkviefni.

„Þetta reynir ofboðslega á mannskapinn. En þetta eru hörkukarlar. Þeir eru ekki búnir til úr neinu kornflexi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert