Samninganefnd Flugfreyjufélags Íslands óskaði eftir frestun samningafundar í kjaradeilu félagsins og Icelandair sem átti að hefjast klukkan 17 síðdegis. Þetta herma heimildir mbl.is. Að öllum líkindum verður ekki boðað til nýs fundar fyrr en í fyrramálið.
Síðasta sáttafundi í kjaradeilunni lauk um klukkan eitt í nótt en fundurinn hófst klukkan tvö eftir hádegi. Lausn er ekki komin í deiluna en Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, sagði í bréfi sem hann sendi öllum starfsmönnum Icelandair fyrir um 10 dögum að langtímasamningar við flugstéttir yrðu að liggja fyrir áður en hluthafafundur félagsins færi fram næstkomandi föstudag. Á fundinum verður ákveðið hvort ráðist verði í nýtt hlutabréfaútboð þar sem safna þarf nýju hlutafé fyrir 29 milljarða króna.
Samningar hafa náðst við flugmenn og flugvirkja. Tilboð samninganefndar Icelandair felur í sér 40% kjaraskerðingu að sögn samninganefndar flugfreyjufélagsins.