Í samantekt Fiskistofu um grásleppuveiðar í vor kemur fram að alls var landað 4.655 tonnum frá upphafi vertíðar til loka apríl. Heildarafli grásleppu á tímabilinu var tæplega 4.085 tonn og meðafli því um 570 tonn, en 157 bátar lönduðu þessum afla.
Þorskur, skarkoli, rauðmagi, steinbítur og ufsi voru algengar meðaflategundir. Ekki liggur fyrir hversu mikið var af sel og sjófugli í meðafla á grásleppuveiðum.
Hafnir með flesta báta, landanir og afla voru Bakkafjörður, Ólafsfjörður og Siglufjörður. Hæst hlutfall meðafla var hins vegar á Árskógssandi, Ólafsvík og Keflavík. Nokkrar hafnir eru ekki með neinn skráðan meðafla, en þær eru Djúpivogur, Eskifjörður, Hvammstangi, Neskaupstaður og Norðurfjörður.
Einn bátur var með nánast jafn mikið af grásleppu og öðrum fiskafla eða 49,92% og sex bátar með 30-50 % af meðafla. 19 bátar voru með nánast engan meðafla, eða innan við 1%.