Minnisvarði um Stjörnu-Odda Helgason verður afhjúpaður á Grenjaðarstað á sólstöðum, 20. júní næstkomandi. Er tíminn viðeigandi því Oddi var talinn merkur vísindamaður miðalda og reiknaði meðal annars út hvenær sólstöður yrðu á sumri og vetri.
Eitt merkasta framlag Íslendinga á miðöldum til viðfangsefna raunvísinda er svokölluð Odda tala sem er eignuð norðlenska vinnumanninum Stjörnu-Odda, skrifar Þorsteinn Vilhjálmsson, fyrrverandi prófessor í eðlisfræði og vísindasögu, í svari á Vísindavefnum.
Þorsteinn segir í Morgunblaðinu í dag, að merkur boðskapur sé í þessu riti sem er frá miðri tólftu öld, og allt það sem þar komi fram sé í aðalatriðum rétt, miðað við aðstæður á þeim tíma.