Hjálmar Sveinsson, formaður menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs, segir Ylströndina við Nauthólsvík enn lokaða vegna tilmæla frá sóttvarnalækni. „Það var talin of mikil nánd þar í pottum og sturtuklefum,“ segir hann við mbl.is.
Í Morgunblaðinu í dag er sagt frá því að sjósundsfólk bíði ólmt eftir að Ylströndin opni og hafi sumt gengið svo langt að lýsa undrun á því að ekki sé búið að opna þar, á sama tíma og sundlaugar landsins eru opnar fyrir almenningi.
Hjálmar segir stefnt að því að opna Ylströndina á mánudaginn fyrir öllum, en þar sem vatnið í pottinum er ekki klórvatn sé hugsanlegt að potturinn verði ekki opinn fyrst um sinn. Ströndin verður þó opin, og sjórinn, að svo miklu marki sem opinber stjórnvöld opna sjó.
ÍTR hefur hikað við að opna Ylströndina vegna klórleysisins og annarra útfærslna sem enn á eftir að huga að. 25. maí á þó að vera hægt að opna, á sama tíma og fjöldi annarra stofnana getur aftur hafið störf, eins og líkamsræktarstöðvar.