Íslenska ríkið viðurkennir brot sitt í málum sex fyrrverandi starfsmanna Húsasmiðjunnar og Byko, eftir því sem fram kemur í sex dómum Mannréttindadómstóls Evrópu í málum mannanna. Mennirnir voru sakfelldir fyrir ólöglegt verðsamráð fyrir Hæstarétti í desember 2016.
Í dómum Mannréttindadómstólsins er sátt milli íslenska ríkisins og umræddra starfsmanna staðfest, en dómarnir eru allir eins.
Mannréttindadómstólinn hafði áður komist að þeirri niðurstöðu á síðasta ári að íslenska ríkið hefði brotið á fyrrverandi starfsmanni Húsasmiðjunnar sem dæmdur var í níu mánaða fangelsi fyrir Hæstarétti í Byko-málinu. Var talið að maðurinn hefði ekki fengið að njóta réttlátrar málsmeðferðar þar sem Hæstiréttur hefði snúið við dómi héraðsdóms og byggt á munnlegum vitnisburði fyrir héraðsdómi, án þess að hafa hlýtt á vitnisburðinn fyrir Hæstarétti.
Í kjölfar dóms Mannréttindadómstólsins frá því í fyrra, í máli Júlíusar Þórs Sigurþórssonar, viðurkenndi ríkið brot sitt í málum hinna mannanna sex og var gengið til sátta gagnvart þeim. Í öllum málum var brotið það sama, en Hæstiréttur var talinn hafa brotið gegn lögum um milliliðalausa málsmeðferð og sönnunarfærslu og reglur Mannréttindasáttmála Evrópu um réttláta málsmeðferð.
Tólf starfsmenn BYKO, Húsasmiðjunnar og Úlfsins byggingaverslunar voru upphaflega ákærðir í málinu, en allir voru þeir sýknaðir fyrir héraðsdómi fyrir utan einn.
Sérstakur saksóknari gaf út ákæru í málinu í maí árið 2014 en fyrirtækin þrjú voru grunuð um að hafa með sér verðsamráð. Dómur var kveðinn upp í héraði í apríl árið 2015, en fyrrverandi framkvæmdastjóri byggingasviðs BYKO var sá eini sem var sakfelldur. Hann var þá dæmdur í eins mánaðar skilorðsbundið fangelsi.
Hæstiréttur sneri hins vegar dómi héraðsdóms og dæmdi sex starfsmenn BYKO og Húsasmiðjunnar fyrir refsivert verðsamráð. Var fyrrverandi framkvæmdastjóri hjá BYKO dæmdur í 18 mánaða fangelsi og kollegi hans hjá Húsasmiðjunni í níu mánaða fangelsi. Tveir fyrrverandi vörustjórar Húsasmiðjunnar voru þá dæmdir annars vegar í níu mánaða fangelsi og hins vegar í þriggja mánaða fangelsi.
Fyrrverandi verslunarstjóri timbursölu og fyrrverandi sölustjóri fagsölusviðs BYKO voru þá hvor um sig dæmdir til að sæta fangelsi í þrjá mánuði.
Hæstiréttur staðfesti þá sýknudóm Héraðsdóms yfir tveimur mannanna.
Allir voru fangelsisdómarnir skilorðsbundnir, nema í tilfelli fyrrverandi framkvæmdastjóra BYKO, en fullnustu 15 mánaða af 18 mánaða refsingu hans var frestað skilorðsbundið í þrjú ár.
Í tengslum við þetta mál hafði Samkeppniseftirlitið dæmt BYKO til að greiða 650 milljónir í sekt vegna samráðsins. Lækkaði héraðsdómur þá upphæð í 400 milljónir. Áfrýjunarnefnd samkeppnismála taldi hins vegar að lækka ætti sektina niður í 65 milljónir, en Landsréttur staðfesti að sektin ætti að vera 325 milljónir. Húsasmiðjan hafði áður viðurkennt sök í málinu og með sáttarsamkomulagi fallist á að greiða 325 milljónir.