Verið er að ganga frá pappírum um sölu FoodCo ehf. á fasteign og rekstri Kaffivagnsins á Granda, eins elsta veitingastaðar landsins. Salteyri ehf. er að kaupa fasteignina og mun ganga frá leigusamningi um húsnæðið til Landvits ehf., sem mun áfram reka „gamla góða Kaffivagninn“ á staðnum.
Viggó Sigursteinsson frá Landviti staðfesti í samtali við mbl.is að samningaviðræður séu langt komnar.
Hvað tekur við í húsnæðinu?
„Hugmyndin hjá rekstrarfélaginu er að halda í gamla góða Kaffivagninn og ekki breyta miklu, nema heldur bæta í í hádeginu,“ segir Viggó í samtali við mbl.is. Sjálfur var hann kokkur til margra ára en hefur frá aldamótum verið í fasteignum.
Viggó mun leigja húsnæðið af nýju eigendunum hjá Salteyri. Salteyri er fasteignafélag sem á meðal annars nokkuð af fasteignum í Hafnarfirði. Þar er Pétur Björnsson stjórnarformaður. Að sögn Péturs áleit félagið húsnæðið góðan fjárfestingarkost og sló til. Hann upplýsir ekki um söluverð fasteignarinnar en talar um „sanngjarnt verð“.
Kaffivagninn er einn af fjölmörgum sem FoodCo rekur. Aðrir staðir á vegum þess eru American Style, Hamborgarafabrikkan, Saffran, Aktu taktu og Eldsmiðjan. Eftir lokun og tilheyrandi tekjufall á Kaffivagninum vegna kórónuveirufaraldursins selur félagið hann nú frá sér.
Í samkomubanninu höfðu þeir fyrst um sinn opið en 24. mars tilkynntu þeir að sumum veitingastöðunum yrði lokað tímabundið. Þar á meðal var Kaffivagninn og ólíkt öðrum veitingastöðum á vegum félagsins var ekki boðið upp á heimsendingu þaðan.
https://www.mbl.is/matur/frettir/2020/03/24/nokkrir_veitingastada_gledipinna_loka_timabundid/
FoodCo hefur átt rekstur og fasteign á staðnum frá 2017 en þá keypti félagið hann af Mjöll Daníelsdóttur og Guðmundi Viðarssyni. Eigendaskipti hafa verið nokkuð tíð á öldinni. Kaffivagninn var stofnaður árið 1935 af Bjarna Kristjánssyni og stóð þá á Ellingsenplaninu á horni Pósthússtrætis og Tryggvagötu. Hann var fluttur út á Granda í byrjun sjötta áratugarins samkvæmt heimasíðu Kaffivagnsins og hefur staðið í núverandi mynd frá árinu 1975.