Samninganefnd Flugfreyjufélags Íslands (FFÍ) mætti til samninganefndar við Icelandair í húsnæði ríkissáttasemjara, þar sem fundur hófst klukkan 8:30 í morgun eftir að FFÍ óskaði eftir frestun fundarins sem var á dagskrá klukkan 17 í gær.
Icelandair og FFÍ hafa fundað stíft undanfarna daga, en Icelandair hefur einsett sér að gera langtímasamning við flugfreyjur fyrir hluthafafund flugfélagsins á föstudag.
Illa hefur gengið að ná í samningsaðila undanfarna daga, en samkvæmt heimildum mbl.is er staðan í viðræðum viðkvæm.
Greint var frá því í Morgunblaðinu í dag að Icelandair hefði til skoðunar að semja við nýtt stéttarfélag flugfreyja.