Ríkisstjórnin hefur ákveðið að verja milljarði króna, fram til ársins 2023, til að styðja við rannsóknir og nýsköpun á samfélagslegum áskorunum, í gegnum Markáætlun á sviði vísinda, tækni og nýsköpunar.
Forsætisráðherra, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og mennta- og menningarmálaráðherra kynntu áætlunina í dag sem og skýrslu um fjórðu iðnbyltinguna og fjölluðu að auki um frekari áherslur ríkisstjórnarinnar í nýsköpun og vísindum.
Aðdragandi áætlunarinnar er að árið 2018 átti vísinda- og tækniráð í víðtæku samráði við almenning, vísindamenn, þingmenn og aðra hagaðila um þær brýnustu áskoranir sem íslenskt samfélag stendur frammi fyrir til næstu ára. Niðurstaðan var að leggja áherslu á þrjár áskoranir; loftlagsbreytingar, heilbrigðisvísindi og fjórðu iðnbyltinguna.
Fram kemur í tilkynningu Stjórnarráðsins að Markáætlun á sviði vísinda, tækni og nýsköpunar nái yfir stefnumótandi áætlanir þar sem um er að ræða tímabundinn forgang á fjármagni. Verkefni skulu unnin í nánu samstarfi fyrirtækja, rannsóknarstofnana og háskóla á einstökum sviðum eða þverfaglegum fræðasviðum á grundvelli vandaðra rannsóknaráætlana.
Ríkisstjórnin hefur einnig samþykkt aðgerðaáætlun sem miðar að því að nýta þau tækifæri sem fjórða iðnbyltingin felur í sér til bæta lífskjör og auka velsæld. Aðgerðaáætlunin felur í sér 27 aðgerðir sem stjórnvöld munu vinna að á komandi misserum. Hún er unnin af verkefnisstjórn sem forsætisráðherra skipaði í júlí 2019 og byggir á ítarlegri greiningu á þeim tækifærum og áskorunum sem fjórða iðnbyltingin hefur í för með sér fyrir íslenskt samfélag.
Í samtali við mbl.is í dag sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra að aðgerðirnar væru misstórar og umfangsmiklar. „Ég sjálf er sérstaklega hrifin af tillögunni um mótun stefnu um gervigreind, hversu langt við viljum ganga og hvaða siðferðislegu álitaefnum við stöndum frammi fyrir í því samhengi,“ sagði Katrín.
Auk þeirra aðgerða sem kynntar voru í dag hefur verið sett á laggirnar þvervísindalegt rannsóknarsetur Margrétar Danadrottningar og Vígdísar Finnbogadóttur um hafið, loftslag og samfélag.