Línuflokkur á vegum Landsnets færði í gær mastur í Hnoðraholtslínu sem liggur á milli tengivirkja í Hafnarfirði og í Hnoðraholti í Garðabæ.
Mastrið var fært um 26 metra í sama línustæði til að rýma fyrir lagningu Ásvallabrautar í Hafnarfirði. Gekk verkið eins og í sögu, samkvæmt upplýsingum Landsnets, og síðdegis í gær átti að setja straum á línuna á nýjan leik.
Línuflokkurinn var búinn að undirbúa verkið með því að lagfæra slóða og útbúa plan fyrir krana og undirstöður á nýjum stað. Krani var notaður til að fella mastrið og reisa það á ný. Línumennirnir stilltu mastrið af og festu stögin.