Segir lokatilboðið hafa falið í sér afarkosti

„Ég vona að Icelandair, sem er einn af stóru burðarásunum …
„Ég vona að Icelandair, sem er einn af stóru burðarásunum í íslensku viðskiptalífi, standi við það að fara eftir leikreglum þess samfélags sem við búum í,“ segir Guðlaug Líney Jóhannsdóttir, formaður Flugfreyjufélags Íslands. mbl.is/Árni Sæberg

„Lokatilboð felur í sér að verið er að setja manni afarkosti. Það er eitthvað sem tíðkast ekki almennt í kjaraviðræðum á Íslandi, þannig að þetta er óvenjulegt með öllu,“ segir Guðlaug Líney Jóhannsdóttir, formaður Flugfreyjufélags Íslands (FÍF), í samtali við mbl.is. 

Fundi í kjaradeilu FFÍ og Icelandair var slitið fyrr í dag. FFÍ hafnaði „loka­til­boði“ Icelanda­ir, sem fyr­ir­tækið lagði fyr­ir fé­lagið fyrr í vik­unni.

FFÍ lagði fram móttilboð sem fól í sér hóflega launahækkun að mati Guðlaugar. Í tilboðinu fólust einnig tilslakanir á hvíldar- og vakttímaákvæðum, sem fela í sér hagræðingu fyrir félagið og aukið vinnuframlag að einhverju leyti. „En þó ekki að því leyti sem Icelandair er að leitast eftir sem við teljum að sé óásættanlegt,“ segir hún. 

Haft er eftir Boga Nils Bogasyni, forstjóra Icelanda­ir, í tilkynningu sem send var út eftir að fundi var slitið að félagið ætli að skoða alla mögu­leika í stöðunni áður en frek­ari skref verða tek­in. Aðspurð hvað hún lesi í þau skilaboð segir Guðlaug að það sé erfitt að segja. 

FÍF óskaði eftir yfirlýsingu frá forstjóra Icelandair eftir að greint var frá því í Morgunblaðinu í morgun að komið hefði til tals inn­an Icelanda­ir að sett verði á lagg­irn­ar nýtt stétt­ar­fé­lag flug­freyja og samið yrði við það í stað FFÍ. 

Atvinnurekendur skipti sér ekki af starfsemi stéttarfélaga

„Stéttarfélög eru með vernd í stjórnarskrá og eru félög launafólks. Atvinnurekendur eiga ekki að vera að skipta sér af starfsemi stéttarfélaga. Ég vona að Icelandair, sem er einn af stóru burðarásunum í íslensku viðskiptalífi, standi við það að fara eftir leikreglum þess samfélags sem við búum í,“ segir Guðlaug.   

Frá samningafundi Flug­freyju­fé­lags Íslands og Icelanda­ir hjá ríkissáttasemjara.
Frá samningafundi Flug­freyju­fé­lags Íslands og Icelanda­ir hjá ríkissáttasemjara. mbl.is/Árni Sæberg

Hlut­hafa­fund­ur Icelandair verður nú á föstu­dag­inn og hef­ur Bogi Nils sagt að samn­ing­ar við flug­stétt­irn­ar þurfi að liggja fyr­ir fyr­ir þann tíma. Guðlaug segir að FFÍ sé undir tímapressu vegna fundarins en að hann geti engu að síður farið fram þótt samningar hafi ekki náðst. „Hluthafar geta að sjálfsögðu tekið ákvörðun um hvort þeir ætli að fara í hlutafjárútboð óháð því hver staða kjaraviðræðna er. Ég geri ráð fyrir að þeir haldi sínum plönum óbreyttum,“ segir hún. 

Mestu máli skiptir að mati Guðlaugar að farið verði eftir settum reglum á vinnumarkaði í kjaraviðræðunum. „Viðræðurnar eru enn þá hjá ríkissáttasemjara og við mætum til fundar ef til hans er boðað.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert