Flutningar standa nú yfir á Þór, bor Jarðborana, af Hellisheiði yfir á Nesjavelli. Þar stendur fyrir dyrum borverkefni fyrir Nesjavallavirkjun, en Sigurður Sigurðsson, forstjóri Jarðborana hf., segir líklegt að þetta verði síðasta háhitaholan sem boruð verði hér á landi í fyrirsjáanlegri framtíð.
Hann segir að síðustu þrjú ár hafi borinn verið notaður talsvert fyrir Orku náttúrunnar á Hellisheiði og Nesjavöllum. Nú sjái fyrir endann á þessum verkefnum og engin ákvörðun liggi fyrir um frekari verkefni hjá ON. Sömu sögu sé að segja um Landsvirkjun og HS Orku.
Sigurður segir að fyrirtækið sé á fullu að leita verkefna í Evrópu, meðal annars með þátttöku í útboðum í Bretlandi, Þýskalandi og Hollandi. Vonandi skili það árangri og þá verði borinn Þór, sem er öflugasti bor Jarðborana og eini háhitaborinn sem er hér á landi, fluttur í verkefni erlendis.
Í vetur gerðu Jarðboranir tæplega þriggja milljarða króna samning um verkefni á Asoreyjum. Þar verður borinn Óðinn notaður til að bora níu háhitaholur, 1.000-2.300 metra djúpar, og verður þar fram yfir mitt næsta ár. Einn bor fyrirtækisins, Týr, stendur á borstæði í Djíbútí og hefur lokið borun, en ekki hefur verið hægt að taka hann niður vegna veirufaraldursins. Minna verkefni bíður Jarðborana í landinu og verður væntanlega farið í það í haust þegar faraldurinn verður genginn niður.