„Við höfum nýtt tímann meðan það var lokað til að hressa aðeins upp á staðinn og klára þessa hugmynd,“ segir Þórður Pálmason veitingamaður.
Þórður og eiginkona hans Auður Kristmannsdóttir hafa ákveðið að endurvekja hinn vinsæla tónleikastað Café Rosenberg sem þau ráku um árabil en seldu árið 2017.
Rosenberg var á árum áður við Lækjargötu en húsið eyðilagðist í bruna árið 2007. Rúmu ári síðar opnuðu þau staðinn á ný við Klapparstíg og ráku við góðan orðstír. Eftir að þau seldu reksturinn fyrir þremur árum entist staðurinn aðeins í um fimm mánuði áður en honum var lokað.
Hið endurreista Rosenberg verður við Vesturgötu 3. Þar var antíkbúðin Fríða frænka lengi til húsa en Þórður og Auður hafa rekið kaffihúsið Stofuna þar undanfarin ár, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.