Samkvæmt upplýsingum frá sex sviðslistastofnunum hérlendis gæti samanlagt fjárhagstjón þeirra vegna samkomubannsins farið yfir hálfan milljarð. Þetta kemur fram í úttekt sem birtist á menningarsíðum Morgunblaðsins í dag.
Leitað var upplýsinga hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands, Íslensku óperunni, Þjóðleikhúsinu, Íslenska dansflokknum, Borgarleikhúsinu og Menningarfélagi Akureyrar.
Hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands nemur tapið þriðjungi af áætluðum miðasölutekjum árið 2020. Hjá Þjóðleikhúsinu fengust þau svör að þriðjungur af sértekjum ársins hefði gufað upp vegna samkomubannsins. Á sama tíma varð Borgarleikhúsið af 40% miðasölutekna á yfirstandandi leikári vegna samkomubannsins. Tap Íslensku óperunnar nemur um 10% af heildarveltu ársins.
„Vegna samkomubanns hefur Sinfóníuhljómsveit Íslands orðið fyrir verulegum tekjumissi enda fjöldi tónleika fallið niður eða frestast til næsta starfsárs. Erfitt er að segja nákvæmlega til um áhrifin sem þetta hefur á reksturinn enn sem komið er, en tapið hleypur á tugum milljóna eða allt að þriðjungi af áætluðum tekjum af miðasölu árið 2020,“ segir Lára Sóley Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands (SÍ), en ráðgert var að sértekjur ársins myndu nema um 300 millljónum.
„Meðan óvissan er svona mikil, bæði vegna samkomubanns og ferðatakmarkana, er vandasamt að gera tímaplön,“ segir Steinunn Birna Ragnarsdóttir, óperustjóri Íslensku óperunnar. Bendir hún á að huga þurfi að fjarlægðartakmörkunum listafólks á sviði. „Því í eðli sínu krefjast sviðslistirnar mikillar líkamlegrar nálægðar listamanna.“
Að sögn Steinunnar Birnu hafa óperuhús víða á meginlandinu nú þegar tilkynnt að þau verði lokuð til áramóta til að minnka fjárhagsskaðann, enda of dýrt að sýna fyrir hálftómu húsi meðan lögbundnar fjarlægðartakmarkanir eru í gildi og bóluefni ekki komið til sögunnar.
„Heildartap Íslenska dansflokksins vegna samkomubannsins og ferðatakmarkana að frádregnu því sem sparast af því að starfsemin hefur verið í lágmarki er um fjórar milljónir,“ segir Hlynur Páll Pálsson, framkvæmdastjóri Íslenska dansflokksins (Íd). Aðspurður segir hann að samkvæmt rekstraráætlun fyrir árið 2020 hafi áætluð velta Íd verið í kringum 220 milljónir.
Fæst þeirra sem rætt var við reiknuðu með því að stjórnvöld myndu bæta menningarstofnunum upp það rekstrartap sem hlotist hefur af samkomubanninu. Mörg óttast frekar að niðurskurðar sé að vænta í ljósi mikilla fjárútláta hins opinbera á öðrum sviðum vegna efnahagslegra afleiðinga kórónuveirufaraldursins á íslenskt efnahagslíf. Allir viðmælendur vona að hægt verði að sýna án takmarkana frá og með haustinu, en ýmsir óttast bakslag í baráttunni við faraldurinn og því sé óvissan enn mjög mikil.
Úttektina má lesa í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.