Vettvangsrannsókn á brunanum við Hafnarstræti 37 á Akureyri lauk í gærkvöldi en rannsókn á tildrögum brunans er enn í gangi og getur hún tekið sinn tíma, samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Norðurlandi eystra. Upptök brunans eru því enn ókunn.
Lögreglan á Norðurlandi eystra annast rannsóknina en lögreglumenn frá rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu fóru norður í gær til að aðstoða við rannsóknina.
Eldur kom upp í húsinu á áttunda tímanum á þriðjudagskvöld en húsið er talið ónýtt.
Karlmaður fannst meðvitundarlaus í húsinu og var fluttur með sjúkraflugi Mýflugs til Reykjavíkur og á Landspítalann, í gærkvöldi var hann þungt haldinn en ekki er vitað um líðan hans að svo stöddu.
Húsið sem brann var tveggja hæða timburhús á steyptum kjallara. Eldurinn náði fljótt að dreifa sér á milli íbúða í húsinu.