Flugmenn samþykktu kjarasamning

Jón Þór Þorvaldsson.
Jón Þór Þorvaldsson. Mbl.is/Hari

Flugmenn samþykktu breyttan kjarasamning við Icelandair með yfirgnæfandi meirihluta. Rafrænni kosningu um samninginn lauk klukkan 16 í dag. 

Þátttakan var 96% en 96,22% þeirra sem svöruðu voru samþykk samningnum og telst hann því samþykktur. 2,6% kusu gegn honum og 1,18% skiluðu auðu atkvæði.

„Það er mikil ánægja að sjá samstöðu okkar fólks á þessum erfiðu tímum. Icelandair er og verður mikilvægur hluti af efnahagslífi Íslands og hryggjarstykkið í öflugri viðspyrnu í kjölfar faraldursins sem lamað hefur flugsamgöngur undanfarna mánuði,“ segir Jón Þór Þorvaldsson, formaður Félags íslenskra atvinnuflugmanna.

Jón segir í samtali við mbl.is að samningurinn sé mikill léttir. 

„Þetta er auðvitað mjög gott og skilaboðin skýr,“ segir Jón og bætir við að hann sé ánægður með niðurstöðuna. 

Jón segir helstu breytingarnar vera þær að flugmenn gefi eftir kjör, auki sveigjanleika, samkeppnishæfni og stöðugleika. „Við tókum slaginn fyrir okkar fyrirtæki og það er augljóst að það sé einhugur hjá félagsmönnum um að gera það.“

Samningurinn gildir til ársins 2025, þannig að flugmenn taka á sig kjaraskerðingar til frambúðar. 

„Þetta er til frambúðar hjá okkur, ekki tímabundnar breytingar. Þetta er bara komið til að vera.“

Jón segist vona að flugfreyjur nái samningum við Icelandair, en flugvirkjar hafa nú þegar samið. 

„Ég vona innilega að fólk nái saman. Það skiptir miklu máli að það gangi allir í takt í fyrirtækinu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka