„Þetta fer allt að lagast,“ segir Ragnhildur Árnadóttir, sem er 100 ára í dag. Hún býr á Hrafnistu í Reykjavík og vegna kórónuveirunnar hefur hún verið innilokuð á sinni hæð og heimsóknir takmarkaðar. En hún sér fram á bjartari tíð. „Þetta fer að lagast,“ segir hún.
„Boðið verður upp á kaffi og rjómatertu í tilefni dagsins,“ heldur afmælisbarnið áfram og segir að sonurinn Oddur Garðarsson flugvirki og tengdadóttirin séu væntanleg. „Oddur og Racel, kona hans, fá að koma en ég á ekki von á öðrum vegna flensunnar.“
Ragnhildur fæddist á Njálsgötu í Reykjavík en síðan flutti fjölskyldan upp í Þverholt, þar sem faðir hennar keypti hús. „Þverholtið þótti vera uppi í sveit,“ rifjar hún upp í viðtali í Morgunblaðinu í dag.