Söngurinn kom sér vel þegar hálfur kórinn smitaðist

Sönghópurinn Spectrum á fjaræfingu.
Sönghópurinn Spectrum á fjaræfingu. Skjáskot/Facebook

Tæplega helmingur þeirra sem mættu á kóræfingu hjá sönghópnum Spectrum 10. mars smitaðist af kórónuveirunni. Alls voru 19 manns á æfingunni og eftir hana greindust átta með veiruna. 

Ingveldur Ýr Jónsdóttir, kórstjóri Spectrum, segir í samtali við mbl.is að smitin hafi öll verið rakin til æfingarinnar.

„Tveimur eða þremur dögum eftir æfinguna byrjar fólk að finna fyrir einkennum og fer í próf. Síðan kemur þetta bara í ljós. Þetta gerist snemma í ferlinu, það var ekki komið samkomubann eða tveggja metra regla, en við héldum samt fjarlægð og vorum ekki að snertast,“ segir Ingveldur. 

„Fráöndun í söng getur mögulega verið meira smitandi en venjuleg öndun þegar það eru tveir metrar á milli manna. Síðan voru náttúrulega sameiginlegir snertifletir sem maður var kannski ekki búinn að átta sig á á þessum tíma.“

Ingveldur segir að hópurinn hafi allur farið í sóttkví. Allir hafi síðan verið útskrifaðir og losnað úr einangrun eða sóttkví. Sumir finni þó enn fyrir slappleika. 

„Sumir finna enn fyrir þessu á meðan aðrir eru hressir og finna ekki neitt. En orkan er lengi að koma til baka, þó að fólk sé jafnvel alveg komið á fullt.“

Þá segir Ingveldur að þeir sem smituðust af veirunni hafi ef til vill búið vel að því að vera vanir söngvarar. 

„Þeir sem lentu kannski í mestu öndunarerfiðleikunum út af sjúkdómnum þökkuðu bara söngnum fyrir að hafa gott vald á öndun og lungunum. Að hafa haft þessa tækni að geta nýtt alla öndunina. Það hjálpaði á endanum að hafa verið að syngja, líka fyrir andlegu hliðina.“

Ingveldur segir kórinn hafa náð að æfa saman með fjarfundatækni á meðan hert samkomubann var í gildi og allur hópurinn í sóttkví eða einangrun. 

„Við fórum að nota Zoom og æfðum með alls konar aðferðum þar. Það voru ýmsar leiðir notaðar en við hættum aldrei, slepptum aldrei úr einni æfingu. Meira að segja þeir sem voru veikastir voru nánast alltaf með okkur, jafnvel þó að þau gætu ekki sungið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert