Dalvíkurbyggð, Skútustaðahreppur og Strandabyggð eru þau þrjú sveitarfélög sem hafa nýtt sér hlutabótaleið stjórnvalda til að greiða sex eða fleiri starfsmönnum sínum laun samkvæmt nýbirtum lista Vinnumálastofnunar.
Skútustaðahreppur, sem er í Mývatnssveit, er eitt af þeim níu sveitarfélögum sem spáð er að verði fyrir þyngsta högginu vegna skerts ferðamannaflæðis til landsins vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.
Dalvíkurbyggð og Strandabyggð eru aftur á móti ekki á meðal þeirra níu sveitarfélaga sem útlit er fyrir að verði fyrir mestum skaða. Hin átta sveitarfélögin sem verða fyrir miklum búsifjum vegna færri ferðamanna eru Bláskógabyggð, Rangárþing eystra, Mýrdalshreppur, Skaftárhreppur, Hornafjörður, Reykjanesbær, Suðurnesjabær og Vogar en ekkert þeirra hefur nýtt sér hlutabótaleið stjórnvalda fyrir sex eða fleiri starfsmenn.
Þá hafa tvö byggðasamlög, stjórnsýslueiningar þar sem tvö eða fleiri sveitarfélög standa saman að rekstri varanlegra verkefna, nýtt sér hlutabótaleiðina fyrir sex eða fleiri starfsmenn en það eru Strætó bs. og Sorpa bs. Ætla má að minna hafi verið að gera í ruslinu að undanförnu þar sem tvö önnur fyrirtæki sem hafa atvinnu af sorphirðu, Terra og Íslenska gámafélagið, hafa einnig nýtt sér hlutabótaleiðina.