Andlát: Vilhjálmur Knudsen

Vilhjálmur Knudsen
Vilhjálmur Knudsen

Vilhjálmur Knudsen kvikmyndagerðarmaður er látinn, 76 ára að aldri. Vilhjálmur fæddist á Bíldudal 14. maí 1944, sonur Ósvaldar Knudsen, málarameistara og kvikmyndagerðarmanns, og Maríu H. Ólafsdóttur listmálara.

Á yngri árum dvaldi Vilhjálmur hjá móður sinni í Kaupmannahöfn, en hún fór þangað í listnám og settist þar að. María skrifaði m.a. bók um ferðalag Vilhjálms, Villi fer til Kaupmannahafnar. María eignaðist tvær dætur í Danmörku, hálfsystur Vilhjálms, Valdísi og Jóhönnu.

Vilhjálmur hóf snemma feril sinn við kvikmyndagerð og var aðeins þrettán ára þegar hann hóf að kvikmynda með föður sínum. Sautján ára gamall hóf Vilhjálmur að sýna kvikmyndir föður síns um land allt á sumrin. Vilhjálmur lauk stúdentsprófi frá MR og hóf síðar nám í kvikmyndagerð í London International Film School.

Eftir heimkomu til Íslands var eitt af fyrstu verkum Vilhjálms að mynda eldgosið í Heimaey ásamt föður sínum. Myndin Eldur í Heimaey var sýnd ásamt fleiri myndum í sal þeirra feðga í Hellusundi, húsi sem faðir hans byggði, samfellt frá árinu 1974. Í Hellusundi ólu hann og Lynn Costello Ryyth, fyrrverandi eiginkona hans, upp þrjú börn, þau Ósvald, Elínu og Vilhjálm. Barnabörnin eru fimm talsins.

Heimildarmyndir þeirra feðga um íslenska náttúru og lifnaðarhætti unnu til margvíslegra verðlauna víða um heim. Af verkum þeirra má helst nefna myndir um Surtseyjargosið, Heimaeyjargosið og Kröflugosin og Sveitin milli sanda sem fjallaði um lífið í Öræfasveit. Vilhjálmur kvikmyndaði einnig umbrotin í Vatnajökli og Heklu ásamt ýmsum menningaratburðum.

Árið 2012 hlaut Vilhjálmur Knudsen heiðursverðlaun Eddunnar fyrir framlag sitt til kvikmyndagerðar og ómetanlega söfnun og varðveislu heimildarmynda um íslenska náttúru og lifnaðarhætti.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert