„Sígandi lukka er best“

Friðrik Pálsson, eigandi og framkvæmdastjóri Hótels Rangár.
Friðrik Pálsson, eigandi og framkvæmdastjóri Hótels Rangár. mbl.is/RAX

Friðrik Pálsson, eigandi og framkvæmdastjóri Hótels Rangár, segist hafa orðið var við að hingað vilji koma ferðamenn, þrátt fyrir að þeir þurfi að sæta sóttkví þegar heim er komið. Hann telur þó best að landamæri verði opnuð hægt og rólega fyrir ferðamönnum.

„Við höfum séð gríðarlega mikið af afbókunum, ekki bara í júní heldur líka í júlí og ágúst. Hins vegar höfum við fengið áhugaverð samtöl frá fólki sem segir: „Ef ég kemst til ykkar vil ég gjarnan gera það, jafnvel þó að ég þurfi að sæta því að fara í sóttkví þegar ég kem aftur heim.“ Þetta höfum við orðið vör við, bæði frá Bandaríkjunum og Bretlandi, þannig að það er greinilega mikill áhugi,“ segir Friðrik í samtali við mbl.is.

Hingað komi takmarkaður fjöldi

Til stendur að opna landamæri Íslands 15. júní eða fyrr. Þá eiga bæði innlendir og erlendir ferðamenn að geta komið til landsins og valið á milli þess að fara í skimun fyrir kórónuveirunni eða tveggja vikna sóttkví. Endanleg áætlun um útfærslu á þessu verður kynnt á mánudag. 

Friðrik telur að þrátt fyrir þetta komi hingað takmarkaður fjöldi ferðamanna í sumar, en Seðlabanki Íslands hefur sagst búast við að ferðamenn verði um 50.000 á síðari hluta ársins. 

„Ég hef ekki trú á því að við eigum eftir að sjá einhverja holskeflu. Ég vona líka og það væri best fyrir alla ef þetta myndi gerast hægt og sígandi. Ég tek bara undir með sóttvarnalækni um að einhvern tímann verðum við að opna og það er betra að opna þegar við eigum ekki von á því að það standi þúsundir bíðandi við dyrnar,“ segir Friðrik.

Áhersla lögð á fámennið

Spurður hvort hann telji Ísland meira heillandi áfangastað en önnur lönd Evrópu telur Friðrik það ekki fjarri lagi. 

„Í þeirri umfjöllun sem við höfum séð í erlendum stórmiðlum sem hafa verið að tala um Ísland er lögð áhersla á hversu sérstakt Ísland er vegna fámennis annars vegar og hvað landið er samt stórt hins vegar og auðvelt að dreifa sér um þetta mikla landsvæði.

Ég held að við höfum þar forskot en ég vil ekki reikna með að það þýði að hér hvolfist yfir okkur einhver fjöldi á næstu mánuðum. Sígandi lukka er best. Ég vona að það komi til með að eiga við í þessu tilfelli.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert