Fjölmiðlafús glæpamaður á hvíta tjaldið

Sindri Þór Stefánsson talaði við fjölmiðla um daginn og veginn …
Sindri Þór Stefánsson talaði við fjölmiðla um daginn og veginn bæði áður og eftir að hann hlaut dóm fyrir stórfelldan þjófnað á tölvubúnaði, sem talið var sýnt að hann hafi skipulagt frá A til Ö.

1. Gamlir vinir koma saman. 2. Skipulagður hinn fullkomni glæpur. 3. Með þessu eina verkefni verða þeir svo ríkir að þeir geta sest í helgan stein það sem eftir er. 4. Þjófnaðurinn er sérstakur að því leyti að endanlegt fórnarlamb hans er einhver fjarlæg óskilgreind eining. 5. Ef eitthvað gerist halda allir kjafti.

Þetta er í mjög grófum dráttum atburðarásin í Bitcoin-málinu svonefnda, þar sem hópur manna undir forystu Sindra Þórs Stefánssonar stal ofurtölvum úr fjórum gagnaverum hér á landi í kringum áramót 2017-2018. Sá galli var þar reyndar á gjöf Njarðar að þetta fór allt út um þúfur, sem setur snoturlega tölusetta framvinduna í uppnám.

En þrátt fyrir gallana á gjöfinni er hún gjöful með óvæntum hætti: Málsgreinin hér efst er ekkert nema nakinn efniskjarni góðrar bandarískrar ránsmyndar (e. heist film) þótt afbrotið í Bitcoin-málinu hafi í raun ekki verið rán heldur þjófnaður. Það þarf ekki þaulreyndan kvikmyndagerðarmannmann til að sjá þann efniskjarna, en svo vill til að það var einmitt þaulreyndur kvikmyndagerðarmaður sem sá það: Sigurjón Sighvatsson.

Sigurjón Sighvatsson kvikmyndaframleiðandi.
Sigurjón Sighvatsson kvikmyndaframleiðandi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við erum með góða sögu, þá er bara að skrifa gott handrit og ef við skrifum gott handrit getum við fengið góðan leikstjóra og góðum leikstjóra treysta síðan góðir leikarar og þá gerum við góða mynd,“ segir Sigurjón við mbl.is.

Sigurjón er með tvær kvikmyndir um málið í bígerð: Eina leikna mynd með erlendum leikurum og eina heimildarmynd á ensku og íslensku í bland. Fyrir hvora tveggja hefur hann aflað nauðsynlegra réttinda, sem fólst bókstaflega í að kaupa réttinn að sögu þeirra einstaklinga sem stóðu að þjófnaðinum: Þetta verður til dæmis gert í samráði við Sindra Þór.

Ekki vitað hvar tölvurnar eru og ekki vitað hver átti þær

Sigurjón bendir á það sem að ofan segir: Sagan af ofurtölvuþjófnaðinum er næstum því fullkomlega sniðin að „heist“-listforminu, bíómyndum um hóp manna sem skipuleggja hinn fullkomna glæp.

Höfuðpaurinn Sindri Þór safnaði vinum sínum saman til þess að fara í eitt stórt verkefni sem ætti að tryggja þeim verulegt fjármagn. Eftir að þjófnaðurinn tókst voru þeir að sögn Sigurjóns farnir að huga að því að koma sér upp villum á Spáni, en loks komst upp um þá. Málið fór fyrir dómstóla og nokkrir ákærðu voru dæmdir í fangelsi en það var aldrei gefið upp hvar tölvurnar sem stolið var eru. Það er enn ekki vitað.

Sindri varð frægur vorið 2018 þegar hann flúði opið fangelsi …
Sindri varð frægur vorið 2018 þegar hann flúði opið fangelsi í Noregi og stakk af til Hollands. Hann var handtekinn í Hollandi. mbl.is/Eggert

Í dómnum var virði þýfisins metið á um 96 milljónir en Sigurjón segir síðasta orðið ekki sagt í þeim efnum, enda komi til greina að menn hafi ætlað að hafa not af tölvunum til lengri tíma sjálfir, til dæmis með útleigu. Þá hefði sagan lengst og það er ekki útilokað enn. 

Annað sem er á huldu er upprunalegur eigandi sjálfra tölvanna. Advania var að þjónusta hann en Sigurjón bendir á að aldrei hafi komið fram hver eigi þær í raun og veru. Þessu verður fylgt eftir í heimildarmyndinni sem er unnið að og reynt að varpa ljósi á það hvert angar myntgraftarstarfseminnar teygja sig í raun og veru, enda hvílir í mörgu leynd yfir þessum nýja atvinnuvegi.

Höfum samúð með þessum tilteknu glæpamönnum

Sigurjón segir að þannig megi sjá fyrir sér að sú starfsemi sem varð fyrir barðinu á þessum vafasama þjófnaði sé ekki endilega síður vafasöm sjálf. Í leiknu kvikmyndinni verður varpað ljósi á þá þversögn og einnig leitast við að kafa meira ofan í persónu þjófanna.

„Hvað drífur menn til þess að gera svona, hver er aðdragandinn, hvernig var æskan, hverjir eru þessir menn?“ spyr Sigurjón. „Sindri varð ákveðin þjóðhetja, þannig að hann hlýtur að hafa eitthvað til að bera. Það er áhugavert að fjalla um menn sem hafa þann eiginleika að við höfum samúð með þeim jafnvel þó að þeir séu að fremja glæpi. Svo eru þeir líka litríkir, sbr. Haffi the Pink.“

Hliðstæður sögunnar við hina hefðbundnu ránsmynd eru miklar. „Þessi glæpur fylgir algerlega strúktúr svona kvikmynda, nema hvað hann á sér stað í raunveruleikanum. Það var ekkert ofbeldi í þessu hjá þeim eins og er yfirleitt ekki í svona myndum, og svo er það þetta með þann sem verður fyrir tjóninu, við höfum ekki mikla samúð með honum. Þetta eru oft bankar eða spilavíti en nú eru þetta nafnlausir myntgrafarar. Við þetta allt bætist íslenskt umhverfi, sem er líka stór leikandi í þessu öllu saman og verður í myndinni,“ segir Sigurjón.

Félagarnir í Amsterdam, Hafþór Logi Hlynsson, Viktor Ingi Sigurðsson og …
Félagarnir í Amsterdam, Hafþór Logi Hlynsson, Viktor Ingi Sigurðsson og Sindri Þór Stefánsson. Hafþór til vinstri og Sindri til hægri voru dæmdir fyrir aðild að þjófnaðinum. Snapchat/Instagram

Fjölmiðlafús glæpamaður

Sindri Þór Stefánsson hefur síðan farið í viðtöl við erlenda fjölmiðla um málið og virðist hinn fúsasti að koma fram og tjá sig. Hann verður til viðtals í heimildarmyndinni, en Sigurjón greinir frá því að Aðalheiður Ámundadóttir, blaðamaður á Fréttablaðinu, verði á meðal þeirra sem koma að verkefninu.

Í hæsta máta viðeigandi er að ljúka þessari stuttu grein með þess konar eftirmála sem sannsöguleg en lygileg ránsmynd mun að líkindum klykkja út með:

Sindri Þór Stefánsson var í byrjun árs 2019 dæmdur í fjögurra og hálfs árs fangelsi. Matth­ías Jón Karls­son var dæmd­ur í tveggja og hálfs árs fang­elsi og Hafþór Logi Hlyns­son í tutt­ugu mánaða fang­elsi. Aðrir sak­born­ing­ar fengu væg­ari dóm.

Öllum sak­born­ing­um var gert að greiða Advania rúm­ar 33 millj­ón­ir króna í skaðabæt­ur. And­virði þýf­is­ins var metið á 96 millj­ón­ir króna en tjónið á 135 millj­ón­ir króna. Búnaður­inn hef­ur ekki fund­ist.

Í niður­stöðu dóms­ins kem­ur fram að ákæru­valdið telji að gögn máls­ins bendi ein­dregið til þess að tölv­un­ar­fræðing­ur­inn Sindri hafi um langt skeið und­ir­búið inn­brot­in, skipu­lagt þau í þaula og fengið hverj­um og ein­um meðákærðu ákveðið hlut­verk í fram­kvæmd þeirra.

Hinir dæmdu hafa allir áfrýjað dómunum til Landsréttar og ekki hafið afplánun refsinganna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka