Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, spurði forsætisráðherra á Alþingi hvort frumvarp sé ekki á leiðinni sem myndi ná sérstaklega utan um útgerðarfyrirtæki.
Tilefni fyrirspurnarinnar er framsal stærstu eigenda Samherja á 84,5% hlutafjár félagsins til barna sinna.
Þórhildur Sunna sagði gjörning eigendanna hafa vakið undrun og eftirtekt í samfélaginu. „Margt er enn á huldu um eðli þessara viðskipta og greiðslna á þessum arfi, fyrirframgreidda arfi, eins og talað hefur verið um. Sömuleiðis vekur þessi eignatilfærsla upp tortryggni vegna þess að rannsókn á meintum mútugreiðslum Samherja í Namibíu stendur enn yfir,“ sagði hún.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði að frumvarp sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um bætt eftirlit með fiskveiðiauðlindinni sé boðað á haustþingi.
Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hafði boðað að hann myndi leggja fram frumvarp eingöngu um tengda aðila en hvarf frá því vegna þess að nefnd sem hefur unnið að bættu eftirliti með fiskveiðiauðlindinni skilar ekki af sér fyrr en í maí. Hefur það dregist meðal annars út af kórónuveirunni, að því er Katrín greindi frá.
Katrín minntist einnig á að sjávarútvegsfyrirtækin falli undir frumvarp sem ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra hefur lagt fram og er í nefnd. Það frumvarp snýst um ríkari upplýsingaskyldu hlutfallslega stórra fyrirtækja sem geta haft mikil kerfislæg áhrif í íslensku atvinnulífi.