Enn er óvissa um hvernig flugi til landsins og frá verður háttað eftir að landamæri Íslands verða opnuð 15. júní næstkomandi. Framkvæmdastjóri hjá Icelandair segir að draumurinn sé að koma á daglegu flugi til nokkurra lykilstaða í Evrópu en ástandið sé viðkvæmt og enn ekki ljóst hversu hratt það geti gerst.
Birna Ósk Einarsdóttir, framkvæmdastjóri sölu- og þjónustusviðs Icelandair, segir að félagið hafi áhuga á að fljúga sem mest en eftirspurnin verði að ráða. Selt sé í flug í leiðakerfi félagsins og unnið með dreififyrirtækjum í öllum löndunum en það ráðist af þróun mála hvert hægt verði að fljúga.
Hún segir að nokkrir hópar ferðalanga séu tilbúnir að ferðast um leið og löndin opnast en búast megi við að aðrir hafi ekki efni á því vegna efnahagslegra afleiðinga kórónuveirufaraldursins. „Erfitt er að gera áætlanir í þessu ástandi. Við getum hreyft okkur hratt og munum gera það þegar við finnum að ferðavilji og áhugi er kominn úr báðum áttum á því að fljúga,“ segir Birna Ósk.
Áhugi er á því hjá Icelandair að hefja daglegt flug til lykilstaða sem fyrst eftir 15. júní. Birna nefnir Kaupmannahöfn, Ósló, Frankfurt og Berlín og síðan Amsterdam fljótlega eftir það. Meiri óvissa er með Stokkhólm og Lundúnir. Löndin hafa ekki opnað dyr sínar enn sem komið er en reiknað er með jákvæðum fréttum á næstunni. Til dæmis er vonast eftir frjálsri för milli Norðurlandanna, að því er fram kemur í umfjöllun um áform þessi í Morgunblaðinu í dag.
Þar segir að þeir sem keypt hafa miða í flug sem fellt er niður geti bókað nýtt flug, fengið inneign eða endurgreiðslu. Birna segir að það muni gilda áfram, á meðan fólk er að fá aftur traust á ferðalögum.