Með því að keyra saman gögn frá Íslenskri erfðagreiningu og gögn frá rakningarteymi almannavarna er búið að staðfesta það sem Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði í byrjun faraldurs um smit meðal barna. Þetta sagði Alma D. Möller landlæknir á upplýsingafundi almannavarna.
Gögnin sýna að börn fá kórónuveiruna síður í sig, smita síður frá sér og veikjast minna en fullorðnir. Þessu hefur Þórólfur haldið fram síðan faraldurinn skall á hér á landi en yfirvöld voru gagnrýnd nokkuð fyrir að loka ekki fyrir skólastarf í leikskólum og grunnskólum.
Í máli Ölmu kom einnig fram að embætti landlæknis vakti ákveðna heilsuþætti landsmanna og ekkert bendi til þess að faraldurinn hafi haft neikvæð áhrif á heilsuhegðun eða líðan landsmanna í mars og apríl. Þannig meti fleiri andlega heilsu sína góða eða mjög góða, fleiri eru sjaldnar eða aldrei einmana og færri glíma við mikla streitu eða svefnleysi.