Storm Orka ehf., sem undirbýr vindorkuver á Hróðnýjarstöðum í Dalabyggð, mótmælir umfjöllun verkefnastjórnar rammaáætlunar um vindorkuver sem ólögmætri. Vísað er til þess að Orkustofnun hafi ekki skilgreint neina vindorkukosti.
Bendir Storm Orka á það í fréttatilkynningu að verulegar tafir hafi orðið á verkefni fyrirtækisins og það megi beint og óbeint rekja til þeirrar réttaróvissu sem umlykur þessi mál og rekja megi til túlkunarágreinings umhverfis- og auðlindaráðuneytisins við Orkustofnun.
Telur fyrirtækið vandað umhverfismat best til þess fallið að grisja burt vonda vindorkukosti. Þá sé túlkun ráðuneytisins andstæð ákvæðum stjórnarskrár um eignarrétt, atvinnufrelsi, skipulagsvald sveitarfélaga og jafnræði, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.