Skimun á landamærum er „framkvæmanlegt“ verkefni

Það þarf að leysa ýmsar hindranir og verkefni áður en …
Það þarf að leysa ýmsar hindranir og verkefni áður en hægt verður að hefja skimanir á komufarþegum á Keflavíkurflugvelli. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sýkla- og veirufræðideild Landspítalans er ekki í stakk búin til að greina nema 500 veirusýni úr komufarþegum á dag og til að auka afkastagetu þarf að bæta tækjabúnað, mönnun og aðstöðu. Þá þarf að huga að birgðastöðu sýnatökusetta en í dag eru „ekki nema 10.000 sett“ til á birgðastöð.

Þetta er meðal þess kemur fram í skýrslu um sýnatöku fyrir COVID-19 á landamærum.

Skýrslan er afrakstur vinnu verkefnisstjórnar sem heilbrigðisráðherra skipaði til að undirbúa framkvæmd vegna sýnatöku og greiningar á COVID-19 meðal farþega sem koma til landsins.

Verkefnisstjórnin var skipuð á grundvelli tillögu heilbrigðisráðherra og dómsmálaráðherra um að stefna að því að bjóða COVID-19 próf  við komuna til landsins í stað þess að  framvísa vottorði sem sóttvarnalæknir metur gilt eða sæta 14 daga sóttkví. Sá kostur á að standa til boða eigi síður en 15. júní.

Í stuttu máli er niðurstaða hópsins sú að verkefnið sé framkvæmanlegt en að leysa þurfi úr mörgum verkþáttum áður en hægt verður að hefjast handa við skimun á landamærum. Skýrslan var kynnt á fundi ríkisstjórnar í morgun og ákveðið að forsætisráðuneytið muni leiða næstu skref. Þetta kemur fram á vef Stjórnarráðsins.

Í niðurstöðukafla skýrslunnar kemur fram að ýmis verkefni þurfi að leysa og verkefni sem þarf að hrinda í framkvæmd til að hefja skimun á landamærum í samræmi við áætlun stjórnvalda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert