Bygging nýju söluhúsanna á Ægisgarði við Gömlu höfnina í Reykjavík hefur tafist nokkuð. Mikil ótíð var í vetur og tafði jarðvinnu. Síðan tók við kórónuveirufaraldurinn, sem tafði smíðavinnu.
Smíðinni átti að ljúka í lok apríl en nú er lokadagur framkvæmda við húsin miðaður við 30. júní, samkvæmt upplýsingum Gísla Gíslasonar, hafnarstjóra Faxaflóahafna.
Tafir við smíðina hafa ekki komið að sök því hvalaskoðunarbátarnir hafa ekki siglt síðan í byrjun mars. Alls er óvíst hvenær þeir hefja siglingar að nýju og fyrstu farmiðarnir verða seldir í söluhúsunum. Ef allt hefði verið eðlilegt væru farnar margar ferðir á dag með erlenda ferðamenn að skoða hvali í Faxaflóa og fuglalíf á eyjum í Kollafirði.
Faxaflóahafnir ákváðu í fyrra að ganga til samninga við eftirtalin fyrirtæki um leigu á húsunum: Special Tours, Eldingu, Sea Safari, Seatrips, Reykjavík by Boat, Happy Tours og Katla Whale Watching. Óljóst er á þessari stundu hve mörg fyrirtæki munu bjóða upp á skoðunarferðir þegar ferðamannastraumurinn glæðist á ný. sisi@mbl.is