Kári sagði Svandísi hrokafulla

Kári Stefánsson í Kastljósi í kvöld.
Kári Stefánsson í Kastljósi í kvöld. Skjáskot

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, segir fyrirtækið ekki ætla að koma að skimun á Keflavíkurflugvelli ef hún verður unnin undir stjórn heilbrigðisráðuneytisins.

Hann sagði í Kastljósi að samskipti ÍE við ráðuneytið séu á þann veg að fyrirtækið treysti sér ekki til þess. Kári vísaði til þess að Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hafi þakkað öllum nema þeim á síðasta blaðamannafundi almannavarna.

Kári sagði Svandísi „í hroka sínum“ ekki hafa treyst sér til að leita til Íslenskrar erfðagreiningar. „Kannski vegna þess að við erum einkafyrirtæki og einkafyrirtæki eru vond. Kannski er það vegna þess að einhvern tímann gagnrýndi ég hana harðlega fyrir það hvernig hún talaði um SÁÁ,“ sagði hann.

Alma Möller landlæknir, Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir …
Alma Möller landlæknir, Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra á blaðamannafundinum fyrr í vikunni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Hrokafull eins og 10 ára stelpa“

Kári sagði Svandísi vera feykilega góðan heilbrigðisráðherra og þann besta sem Ísland hefur haft í langan tíma. „En af og til verður hún ofboðslega hrokafull eins og lítil 10 ára stelpa sem ætlar ekki að láta neinn segja sér nokkurn skapaðan hlut.“

Hann sagði ÍE ekki treysta því fólki sem Svandís hefur beðið um að annast skimanir á Keflavíkurflugvelli. Bætti hann við að það væri ekki hlutverk fyrirtækisins að skima á flugvellinum en það hefði getað veitt aðstoð í tengslum við það. 

Þórólfur Guðnason.
Þórólfur Guðnason. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lokar fyrir símtöl frá Þórólfi

Kári hélt áfram og sagðist eiga erfitt með að segja nei ef Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir biður hann um aðstoð vegna skimana vegna þess hve sjarmerandi og skemmtilegur hann er. „Ég er búinn að blokka símann hans á símanum mínum,“ sagði hann í framhaldinu og sagði ástæðuna þá að þannig gæti Þórólfur ekki hringt í hann og beðið hann um þetta.

„Þú ert alveg ruglaður,“ sagði Einar Þorsteinsson þáttastjórnandi í framhaldinu, furðu lostinn. Þá svaraði Kári: „Ég þekki fólk sem myndi taka undir það, vera sammála þér en þú dæmir menn bara af verkum þeirra, ekki satt?“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert