Rúmlega tvítugur karlmaður sem var handtekinn í nótt vegna útkalls að Ölfusá hefur verið látinn laus úr haldi lögreglu.
Um gabb var að ræða en maðurinn hringdi eftir aðstoð lögreglu vegna manneskju sem átti að hafa dottið í ána. Hann gaf sínar skýringar á útkallinu að því er segir í tilkynningu lögreglunnar á Facebook.
Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi, sagði í samtali við mbl.is fyrr í dag að maðurinn hefði fundist í felum í runna á árbakkanum þegar lögregla og viðbragðsaðilar voru við það að hefja allsherjarleit líkt og tíðkast þegar tilkynningar af þessu tagi berast lögreglu.
Skýrsla var tekin af manninum í dag og hann síðan látinn laus. Málið telst upplýst og fer nú sína leið til ákæruvalds til ákvörðunar um framhald þess en refsivert er að gabba lögreglu.