Tveir milljarðar vegna sóttkvíar í stað 700 milljóna

Alls hafa 20.389 lokið sóttkví samkvæmt tölulegum upplýsingum á covid.is …
Alls hafa 20.389 lokið sóttkví samkvæmt tölulegum upplýsingum á covid.is og 766 eru í sóttkví nú. Eru það mun fleiri en upphaflega var reiknað með, að því er segir í frumvarpinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Heildargreiðslur ríkissjóðs vegna einstaklinga sem fóru í sóttkví verða tveir milljarðar samkvæmt frumvarpi fjármálaráðherra til fjáraukalaga. Hámarksfjárhæð miðast við 630 þúsund í mánaðarlaun. 

Frumvarpinu var dreift á Alþingi í gær. Upphaflega var gert ráð fyrir að heildargreiðslur vegna þessa yrðu um helmingi lægri eða um 700 milljónir. Í frumvarpinu segir að sóttkví hafi verið lykilráðstöfun í baráttunni við veiruna og markmiðið með greiðslum úr Atvinnuleysistryggingasjóði sé að verja einstaklinga gegn tekjutapi og stuðla þannig að því að fólk fari eftir fyrirmælum stjórnvalda. 

Alls hafa 20.389 lokið sóttkví samkvæmt tölulegum upplýsingum á covid.is og 766 eru í sóttkví nú. Eru það mun fleiri en upphaflega var reiknað með, að því er segir í frumvarpinu. 

Fyrst var fjallað um tíma­bundn­ar greiðslur vegna launa ein­stak­linga sem sæta sótt­kví sam­kvæmt fyr­ir­mæl­um heil­brigðis­yf­ir­valda með sameiginlegri yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins, sem undirrituð var 5. mars. Í frumvarpi félags- og barnamálaráðherra sem ríkisstjórnin fjallaði um stuttu síðar var gert ráð fyrir að tímabilið myndi ná til 30. apríl en samkvæmt fjáraukalögum hefur það verið framlengt til 30. september.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert