„Ekki til fallegri mynd en þessi“

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir varpaði upp sömu mynd og Kári og …
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir varpaði upp sömu mynd og Kári og báðir dásömuðu þeir kúrfuna sem sýnir virk COVID-19-smit. Skjáskot/ÍE

„Akkúrat á þessum tíma er ekki til fallegri mynd en þessi,“ sagði Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, á fræðslufundi um COVID-19 í dag, þar sem hann varpaði upp mynd af kúrfunni sem sýnir fjölda virkra smita og þeirra sem er batnað af COVID-19. 

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, á fræðslufundi ÍE um baráttuna …
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, á fræðslufundi ÍE um baráttuna við COVID-19. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir tók undir orð Kára í sínu erindi. „Hún hlýtur að vera falleg því við erum öll að sýna hana.“ 

Þórólfur sagði kúrfuna vera óvenjulega fyrir smitsjúkdóm af þessu tagi. „Það sem er óvenjulegt hér er þessi hraða sveifla upp á við sem gerist mjög hratt,“ sagði Þórólfur og bætti við að Ísland hefði í raun fengið „heilan farm af flugvélum með COVID“.

Stóð ekki á sama um tíma

„Við fókuseruðum mjög hratt á það en vorum kannski ekki viðbúin að veiran færi að smygla sér aðrar leiðir eins og hefur komið fram. Okkur stóð ekkert voðalega mikið á sama á þessum tímapunkti þegar það var mjög hröð sveifla í fjölgun tilfella.“ 

Þórólfur segir það einnig óvenjulegt, miðað við sambærilega smitsjúkdóma, hversu hratt kúrfan féll og þakkar hann viðbrögðum heilbrigðisyfirvalda hér á landi fyrir þann árangur. 

Svandís Svavarsdóttir tók jafnframt undir orð Kára og Þórólfs um fallegu kúrfuna og sagði hana minna á Snæfellsjökul, þegar búið væri að teygja aðeins úr honum. 

Hér er hægt að horfa á fræðslufundinn í heild sinni: 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert