Frumvarp til laga um stuðning úr ríkissjóði vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti kann að óbreyttu að skekkja samkeppnisstöðu með óeðlilegum hætti. Meirihluti efnahags- og viðskiptanefndar vekur athygli á því í nefndaráliti sínu. Þar leggur nefndin einnig til undanþágu frá skilyrði um arðsúthlutun og að Skatturinn sé skyldaður til að birta lista yfir þau fyrirtæki sem nýta sér aðstoðina. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður Miðflokksins, skrifaði undir álitið með fyrirvara.
Airport Associates snertu á mögulegri skekkju í umsögn sinni um frumvarpið og tekur Samkeppniseftirlitið undir þessar áhyggjur Airport Associates.
Í frumvarpinu kemur fram að meðaltal mánaðartekna atvinnurekanda frá 1. mars 2020 til uppsagnardags þurfi að hafa dregist saman um a.m.k. 75% í samanburði við eitthvert fjögurra nánar tilgreindra tímabila, ætli atvinnurekandinn að nýta sér stuðning úr ríkissjóði.
Nefndin bendir á í áliti sínu að töluvert hafi verið um ferðamenn á Íslandi í fyrri hluta marsmánaðar og því megi gera ráð fyrir því að mörg fyrirtæki, m.a. í verslun og þjónustu, hafi fengið nokkrar tekjur í marsmánuði og að sá mánuður gefi ekki raunhæfa mynd af því tekjufalli fyrirtækja sem rétt væri að miða við. Meirihlutinn leggur því til að upphafsdagur viðmiðunartímabils tekjufalls verði 1. apríl í stað 1. mars.
Þá leggur meirihlutinn til að undanþága verði til staðar í frumvarpinu frá skilyrði um arðsúthlutun vegna nýs hlutafjár en á meðal skilyrða fyrir fjárstuðningi samkvæmt frumvarpinu er að atvinnurekandi hafi ekki ákvarðað úthlutun arðs frá 15. mars 2020 og skuldbindi sig til að gera það ekki fyrr en fjárstuðningur hefur að fullu verið tekjufærður eða endurgreiddur.
Telur meirihlutinn að ástæða kunni að vera til að heimila undanþágu frá þessu skilyrði í tilvikum þegar um nýtt hlutafé er að ræða sem orðið hefur til á grundvelli hlutafjáraukningar sem ráðist er í eftir að fjárhagslegir erfiðleikar, sem rekja má beint eða óbeint til heimsfaraldursins, komu upp.
„Skilyrðið gæti að öðrum kosti haft fælandi áhrif á fjárfesta, takmarkað þar með möguleika atvinnurekanda á að halda velli og þannig unnið gegn markmiði frumvarpsins,“ segir í áliti nefndarinnar sem leggur þó til að túlka skuli undanþáguheimildina þröngt og Skattinum gefnar rúmar heimildir til að hafna beiðni um undanþágu.
„Þetta getur t.d. átt við ef sýnt þykir að ákvörðun um hlutafjáraukningu hafi verið tekin í þeim tilgangi fremstum að komast hjá skilyrðinu um arðsúthlutun eða ef slík ákvörðun var tekin áður en ljóst varð að faraldur kórónuveiru mundi hafa verulega slæmar efnahagslegar afleiðingar hér á landi.“
Þá vill meirihlutinn að Skatturinn sé skyldaður til að birta upplýsingar um það hvaða atvinnurekendum hefur verið ákvarðaður stuðningur úr ríkissjóði samkvæmt lögum og þá hversu mikill.
„Samræmdist það betur sjónarmiðum um rétt almennings til aðgangs að upplýsingum um ráðstöfun opinbers fjár.“
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður Miðflokksins, skrifaði undir nefndarálitið með sérstökum fyrirvara. Í honum tekur Sigmundur fram að frumvarpið hafi varla verið fullbúið þegar það var lagt fyrir Alþingi.
„Breytingartillögurnar sem birtast í álitinu eru almennt til bóta og sumar bráðnauðsynlegar. Tilraun til að leysa þann vanda sem felst í banni við arðgreiðslum fyrirtækja, á sama tíma og mörg fyrirtæki eiga erfitt með fjármögnun, er þó of óljós og flókin til að leysa málið svo að vel sé. Ekki verður þó fram hjá því litið að málið er erfitt viðfangs,“ segir í áliti Sigmundar sem tekur sérstaklega fram að gera mætti nokkrar athugasemdir við þá upptalningu á aðgerðum og kostnaðarmati þeirra sem er að finna í frumvarpinu.