Hefur áður sakað Svandísi um hroka

Kári Stefánsson og Svandís Svavarsdóttir.
Kári Stefánsson og Svandís Svavarsdóttir. Ljósmynd/Samsett/Eggert

Um eitt þúsund manns hafa líkað við færslu Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra á Facebook þar sem hún birti ræðuna sem hún flutti á blaðamannafundi almannavarna á mánudaginn.

Ummælin við færsluna eru hátt í eitt hundrað talsins, þar sem flestir ef ekki allir lýsa yfir ánægju sinni með ræðuna.

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, benti á það í Kastljósi í gærkvöldi að Svandís hefði þakkað öllum nema ÍE í ræðunni en þar er hvergi minnst beinum orðum á fyrirtækið eða Kára. 

„Með hroka og yfirlæti“

Í þættinum sagði Kári einnig að Svandís hefði „í hroka sínum“ ekki treyst sér til að leita til Íslenskrar erfðagreiningar varðandi aðstoð við skimanir í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. „Kannski vegna þess að við erum einkafyrirtæki og einkafyrirtæki eru vond. Kannski er það vegna þess að einhvern tímann gagnrýndi ég hana harðlega fyrir það hvernig hún talaði um SÁÁ,“ sagði hann.

Þar átti Kári við grein sem hann sendi í Fréttablaðið árið 2018 og vitnaði í orð Svandísar um að skilgreina þyrfti biðlistann á Vogi og kanna hvers konar skilyrði þurfi að uppfylla til að fá að vera á honum.

Kári sagði Svandísi, sem þá hafði nýlega tekið við embætti heilbrigðisráðherra, ekki hafa þekkingu, reynslu eða getu til að meðhöndla fíknisjúkdóma og verði hún því að leita til annarra um ráð. „Hún virðist hins vegar ákveðin í því að fara í geitarhús að leita ullar og í stað þess að sitja við fótskör SÁÁ til þess að læra talar hún til þeirra með hroka og yfirlæti og dregur í efa frásagnir þeirra af vandanum. Þegar maður verður var við ábyrgðarleysi af þessum toga í viðbrögðum við faraldri af banvænum sjúkdómi vaknar hjá manni spurningin gamla Jóns Hreggviðssonar: Hvenær drepur maður mann?“ skrifaði hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert