Mál Mjólkursamsölunnar fer fyrir Hæstarétt

Sektin nam í fyrstu 480 milljónum króna.
Sektin nam í fyrstu 480 milljónum króna. mbl.is/Kristinn

Hæstiréttur hefur samþykkt áfrýjunarbeiðni Mjólkursamsölunnar í máli einkahlutafélagsins gegn Samkeppniseftirlitinu.

Eftirlitið hafði sektað Mjólkursamsöluna um 480 milljónir króna fyrir brot á samkeppnislögum, en áfrýjunarnefnd samkeppnismála lækkað sektina niður í 40 milljónir króna.

Eftirlitið hélt því fram að félagið hefði selt keppinautum sínum ógerilsneydda mjólk, sem sé grundvallarhráefni við framleiðslu mjólkurvara, á óeðlilega háu verði. Á sama tíma hafi Mjólkursamsalan og aðilar henni tengdir fengið hráefnið á mun lægra verði.

Felldi úrskurð nefndarinnar úr gildi

Áfrýjunarnefndin leit hins vegar svo á að fyrirtækið hefði ekki mismunað viðskiptavinum sínum, en hefði þó veitt samkeppnisyfirvöldum rangar upplýsingar.

Niðurstöðu áfrýjunarnefndarinnar var skotið til Héraðsdóms Reykjavíkur, sem felldi úrskurðinn úr gildi, og Landsréttur staðfesti þá niðurstöðu.

Mjólkursamsalan vísaði þá málinu til Hæstaréttar, sem féllst eins og áður sagði á að taka málið fyrir. Dómur í málinu geti haft fordæmisgildi um þau atriði sem beiðnin byggi á.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert