„Við fáum ekki krónu endurgreidda“

Elísabet Agnarsdóttir, annar eigandi ferðaskrifstofunnar Tripical.
Elísabet Agnarsdóttir, annar eigandi ferðaskrifstofunnar Tripical. Ljósmynd/Aðsend

Annar eigandi ferðaskrifstofunnar Tripical segir ferðaskrifstofuna í „pattstöðu“ eins og margar aðrar ferðaskrifstofur þessa dagana þar sem löggjöf hafi víða tekið gildi í Evrópu sem heimili ferðaþjónustufyrirtækjum að „endurgreiða“ viðskiptavinum sínum, þar á meðal ferðaskrifstofunum, með inneignarnótum vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

Þar sem slík löggjöf hefur ekki tekið gildi hérlendis eru íslenskar ferðaskrifstofur skyldaðar til að endurgreiða viðskiptavinum sínum 14 dögum eftir að ferð er aflýst en ekki þær evrópsku. Því hafa íslenskar ferðaskrifstofur greitt háar fjárhæðir erlendis fyrir viðskiptavini sína sem þær geti ekki fengið endurgreiddar en þurfa samt sem áður að endurgreiða viðskiptavinum sínum.

„Við erum búin að borga fullt af peningum úti um allan heim en fáum bara inneignarnótur og getum nýtt þær seinna. Við fáum ekki krónu endurgreidda. Við erum búin að vera með lögmann í að reyna að endurheimta eitthvað en það hefur ekki tekist,“ segir Elísabet Agnarsdóttir, annar eigenda Tripical.

Ferðin verði ekki farin en hefur ekki verið aflýst

mbl.is greindi frá því fyrr í dag að útskriftarnemendur hjá Menntaskólanum við Sund væru ósáttir með að Tripical hefði ekki endurgreitt þeim fyrirhugaða útskriftarferð sem átti að vera farin 4. júní næstkomandi. Í fréttinni kom fram að samskiptaleysi hafi verið á milli nemenda og Tripical en Elísabet segir það af og frá, það sé þó erfitt að gefa nemendum skýr svör á miklum óvissutímum sem þessum.

„Það eru allir meðvitaðir um að það á ekki að fara í þessa ferð. Við upplýsum nefndirnar sem sjá um útskriftarferðirnar stöðugt um leið og við vitum eitthvað og þær upplýsa síðan nemendurna.“

Ferð MS hefur ekki verið aflýst en Elísabet segir þó ljóst að ferðin verði ekki farin. Spurð hvers vegna ferðinni sé ekki einfaldlega aflýst og þá endurgreidd innan 14 daga frá aflýsingu eins og lög kveða á um segir Elísabet:

„Ferðum í dag er bara aflýst rétt áður en er farið þar sem það veit enginn hvernig ástandið verður. Við erum ekki að leyna neinu og það er alveg á hreinu frá okkar hálfu því við þurfum auðvitað bara að fara eftir lögum og reglum. Það eru allir upplýstir um hvernig það virkar svo það er enginn að reyna að fela neitt.“

Frumvarp um inneignarnótur geti haft úrslitaáhrif

Elísabet segir að ferðaskrifstofur bíði almennt eftir frumvarpi um að end­ur­greiða megi pakka­ferðir með inn­eign­arnót­um í stað end­ur­greiðslu í pen­ing­um. Það frumvarp geti haft úrslitaáhrif á það hvort skrifstofurnar lifi faraldurinn af.

„Það eru allar ferðaskrifstofur að bíða eftir frumvarpinu og það er ekki kominn tími á endurgreiðslur hjá okkur, það er ekki fyrr en 14 dögum eftir að ferðin átti að hefjast.“

Samkvæmt lögum er neytendum heimilt að afpanta ferðir ef ófyrirsjáanlegar aðstæður gera það nauðsynlegt. Elísabet segir að einhverjir hafi þegar gert það. Spurð hvort þeir fái þá endurgreitt innan fjórtán daga frá því að þeir pöntuðu segir Elísabet:

„Það er ekkert komið að því. Ef við förum að endurgreiða öllum þá fer fyrirtækið bara í þrot á meðan við fáum ekkert til baka, ríkið gerir ekkert fyrir okkur og það er enginn sveigjanleiki með það.“ 

Bjóða upp á ferð til Hellu í staðinn

Elísabet segir að enginn muni græða á því ef Tripical þurfi að endurgreiða öllum og fari í þrot. Fyrirtækið sé þó tryggt og viðskiptavinir ættu ekki að tapa fjármunum á því ef fyrirtækið færi í þrot, það væri þó hvorki óskastaða fyrir eigendur Tripical né viðskiptavini sem þyrftu að fara í gegnum tímafrekt ferli til að fá endurgreiðslu úr gjaldþrota fyrirtæki.

Tripical hefur boðið útskriftarnemum upp á ferð innan landsteinanna í stað utan þeirra sem nefnist Costa Del Hella. Þar verður boðið upp á svipaða afþreyingu og er að finna í útskriftarferðum menntaskólanema, þ.e. froðu/togapartý, óvissuferð og lokapartý. Ferðin er ódýrari en ferðir utanlands og stefna eigendur Tripical á að endurgreiða mismuninn með inneignarnótum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert