Loka þurfti íþróttavöruversluninni Sportvörum í þrjár vikur þegar heimsfaraldur kórónuveiru stóð sem hæst. Að sögn eiganda Sportvara, Eyþórs Ragnarssonar, réð verslunin einfaldlega ekki við stóraukna eftirspurn einstaklinga.
„Við færðum okkur yfir í netverslun vegna þess að ágangurinn var svo mikill. Á tímabili vorum við bara með heimsendingar til að tryggja öryggi starfsfólks,“ segir Eyþór og bætir við að verslunin hafi selt gríðarlegt magn heimatækja meðan á ástandinu stóð.
Áætlar hann að söluaukning í aprílmánuði hafi verið um 300% samanborið við sama mánuð í fyrra. „Þetta var náttúrulega pínu sturlun í smá tíma. Við bjuggum ágætlega að því að hafa verið með góða stöðu þegar þetta fór af stað. Það er þó þannig að við hefðum ábyggilega getað selt þrefalt til fjórfalt magn vinsælustu varanna,“ segir Eyþór í Morgunblaðinu í dag.