Ragnhildur Þrastardóttir
Það sem af er maímánuði hafa fimmtán fyrirtæki tilkynnt Vinnumálastofnun um hópuppsagnir en 1.000 manns misstu samtals vinnuna í þeim. Ólíklegt er þó að hið versta sé yfirstaðið í mánuðinum þótt einungis tæpir þrír dagar séu eftir af honum, enda berast gjarnan flestar tilkynningar á síðustu dögum mánaðarins. Þetta segir Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunar.
„Þetta er mjög svipað því sem við höfum spáð og þetta kemur ekki á óvart,“ segir Unnur.
Fyrirtækin sem hafa tilkynnt um hópuppsagnir eru flest af höfuðborgarsvæðinu og Suðvesturlandi, að sögn Unnar. „Þetta er á svæðinu þar sem mest af mannfjöldanum er.“
Fyrirtækin sem hafa tilkynnt um hópuppsagnir í maímánuði eru flest ferðaþjónustufyrirtæki og telur Unnur að fleiri tilkynningar gætu borist um helgina. „Reynslan hefur sýnt að á síðustu dögum mánaðarins berast oftast flestar tilkynningar.“
Hópuppsagnirnar eru þó talsvert færri en á síðustu mánuðum en alls bárust 57 tilkynningar um hópuppsagnir Vinnumálastofnun í apríl þar sem 4.654 starfsmönnum var sagt upp störfum. Bættist sá fjöldi ofan á hópuppsagnir marsmánaðar þar sem 29 fyrirtæki sögðu upp 1.207 manns.
Í maímánuði í fyrra bárust Vinnumálastofnun tvær tilkynningar um hópuppsagnir þar sem 53 starfsmönnum var sagt upp störfum.