„Smátt og smátt að mjakast í rétta átt“

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra.
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra. mbl.is/​Hari

„Þetta er smátt og smátt að mjakast í rétta átt,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra. Tilkynnt hefur verið að Íslendingar geti í næsta mánuði ferðast til Danmerkur, Færeyja og Eistlands og ráðherra á von á jákvæðum fréttum varðandi ferðalög til Noregs á næstunni.

Opið er á ferðalög til Svíþjóðar og Guðlaugur Þór segir norska kollega sína jákvæða á að opna landamærin fyrir Íslendingum. 

„Það er þó ekki komin endanleg niðurstaða í það. Einnig erum við inni í frumvarpinu hjá Þjóðverjunum,“ segir ráðherra. 

Ljóst er að ferðalögin verða háð einhverjum skilyrðum eins og á við um ferðafólk sem kemur hingað til lands frá 15. júní. Til að mynda má ferðafólk að utan ekki gista í Kaupmannahöfn.

„Þetta eru útfærslur eftir löndum en hlutirnir eru að gerast svolítið hratt núna,“ segir Guðlaugur Þór og heldur áfram:

„Flestir hugsa eins og við að stíga þannig til jarðar að áhættan sé eins lítil og mögulegt er.“ 

Ráðherra kveðst eiga von á frekari fregnum af mögulegum ferðalögum Íslendinga í sumar og segist trúa því að málin séu að þróast í rétta átt. 

„Þetta gerist ekki af sjálfu sér og við þurfum að halda okkar hagsmunum á lofti í þessu og það höfum við gert. Hin ástæðan fyrir því að við erum inni í þessu er sú að við höfum staðið okkur vel að halda veirunni niðri.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert