Áforma að byggja 175 íbúðir á lóð á horni Grensásvegar

Grensásvegur 1. Svona sjá arkitektarnir fyrir sér útlit húsanna. Hús …
Grensásvegur 1. Svona sjá arkitektarnir fyrir sér útlit húsanna. Hús A, sem er tilbúið til byggingar, er fjærst Grens-ásvegi en næst Skeifunni. Suðurlandsbraut sést til vinstri á myndinni og næst henni verður skrifstofubyggingin. Tölvuteikning/Rýma arkitektar

Fasteignafélagið G1 ehf. hefur kynnt fyrir borgaryfirvöldum áform um uppbyggingu á lóð nr. 1 við Grensásveg þar sem fyrirhugað er að byggja um 175 íbúðir og sjö hæða 3.200 fermetra skrifstofubyggingu út að Suðurlandsbraut. Umrædd lóð er skáhallt á móti Glæsibæ.

Fram kemur í kynningu sem fylgir með erindinu að á þessum reit hafi verið áður aðalstöðvar Hitaveitu Reykjavíkur. Þau hús verða nú rifin, en eldri dælustöð miðsvæðis á lóðinni verður í notkun næstu árin en hún er friðuð. Síðar var Mannvit þar til húsa en nú síðast Kvikmyndaskóli Íslands.

Tillögurnar eru unnar af arkitektunum hjá Archus-Rýma.

Fyrsta húsið er fullhannað

Samkvæmt samþykktu deiliskipulagi arkitektastofunnar Batterísins er möguleiki á allt að 204 íbúðum í fjórum aðskildum húsum á reitnum. Fyrsta húsið hefur verið fullunnið og lagt inn til byggingarnefndar. Það hús hefur þá sérstöðu að það er byggt ofan á þegar byggðan bílakjallara sem gengur þrjár hæðir niður í jörðina og eru þar stæði fyrir 75 bíla. Alls er gert ráð fyrir 181 stæði neðanjarðar. Eitt húsanna hefur þá sérstöðu að það er ekki hægt að byggja fyrr en gríðarmiklar lagnir að dæluhúsi hafa verið teknar úr notkun eftir 8-10 ár.

„Lóðarhafi vill byrja að byggja A húsið síðsumars og biður því skipulags og byggingaryfirvöld að hraða umfjöllun og samþykktarferli svo sem hægt er. Skipulagið hefur hlotið fullt samþykki og verið auglýst í B-tíðindum, svo ekkert er til fyrirstöðu,“ segir í erindi G1.

Húsin sem Hitaveita Reykjavíkur reisti á sínum tíma verða rifin.
Húsin sem Hitaveita Reykjavíkur reisti á sínum tíma verða rifin. mbl.is/RAX

„Á þessum gríðarerfiðu óvissutímum í sögu þjóðarinnar, nú þegar mörg áform eru dregin til baka, er aðdáunarvert að kjarkur einstaklinga til framkvæmda sé enn til staðar eins og sést hjá Jóni Þór Hjaltasyni, sem stendur fyrir þessari byggingu, sem þó er gríðarflókin. Þarna þarf að fjarlægja eldri hús og byggja við þröngar aðstæður. En þétting og uppbygging þarna verður umhverfinu hvatning til fegurðarauka og eflingar og mikilsverð andlitslyfting á þessum hluta Grensásvegar, sem og hvatning/vegvísir til uppbyggingar í Skeifunni,“ segir Guðmundur Gunnlaugsson, arkitekt FAÍ, í lokaorðum erindisins.

Árið 2017 voru kynntar áætlanir um að byggja á lóðinni stærsta hótel landsins, með 300 herbergjum. Hætt var við þau áform árið 2019 og var uppgefin ástæða sú að bankarnir voru á þeim tíma búnir að fylla hjá sér lánakvóta til hótela.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 28. maí. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert