Átak í atvinnumálum boðað í Skagafirði

Gísli Sigurðsson, Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, Stefán Vagn Stefánsson og …
Gísli Sigurðsson, Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, Stefán Vagn Stefánsson og Sigfús Ingi Sigfússon eftir undirritun samnings um koltrefjar. Ljósmynd/Aðsend

Sveitarfélagið Skagafjörður hefur kynnt átak í atvinnumálum og fjárfestingum sem viðspyrnu vegna efnahagslegra afleiðinga kórónuveirufaraldursins. Þegar teknar eru með fjárfestingar á vegum ríkisins sem í mörgum tilvikum er þegar unnið að nema fjárfestingar nokkuð á fjórða milljarð, að sögn Stefáns Vagns Stefánssonar, formanns byggðaráðs. Þá fjölgar atvinnutækifærum nokkuð.

„Við töldum rétt að gera lista yfir aðgerðir sem sveitarfélagið og ríkið gætu farið í til að veita viðspyrnu og spýta krafti inn í atvinnulífið til að draga úr högginu sem verður hér, eins og annars staðar,“ segir Stefán Vagn. Tillögurnar hafa verið unnar í samvinnu allra fulltrúa í byggðaráði og voru kynntar í gær á vef sveitarfélagsins.

Ný störf verða til

Stærstu fjárfestingarverkefnin eru á vegum Landsnets og Rarik í tengslum við lagningu nýrrar Sauðárkrókslínu frá Varmahlíð sem tekin verður í notkun í haust og framkvæmdir á vegum Vegagerðarinnar í höfnum og sjóvörnum á Sauðárkróki og Hofsósi. Áætlað er að endurbætur á sjóvörn í Sauðárkrókshöfn og við Strandveg sem fór illa í óveðrum í vetur kosti á þriðja hundrað milljónir kr. Vegna þessara framkvæmda eykur sveitarfélagið fjárfestingar sínar um 180 milljónir en áður voru 500 milljónir kr. ætlaðar til fjárfestinga og viðhalds.

Í umfjöllun um mál þessi í Morgunblaðinu í dag segir Stefán Vagn að atvinnuástandið hafi versnað á síðustu vikum og mánuðum en sé eigi að síður þokkalegt. Þó þurfi að bæta í, til að snúa vörn í sókn, og næg tækifæri séu til þess.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert