„Það var komið til móts við okkar sjónarmið að hluta til en ekki öllu leyti. Við höfum töluverðar áhyggjur af starfsaldursröð og vildum fá það inn. Við vildum líka fá það inn að fólki gæfist færi á endurmenntun meðan á uppsagnarfresti stæði," segir Drífa Snædal, forseti ASÍ, í samtali við mbl.is.
Drífa var spurð um frumvörp ríkisstjórnarinnar sem samþykkt voru á Alþingi í gær um greiðslu ríkisins á hluta launa á uppsagnarfresti sem og um framlengingu hlutabótaleiðarinnar. Fyrr í vikunni hafði hún varað við því að ef frumvörpin yrðu samþykkt óbreytt gæti það leitt til mestu kjaraskerðingar síðari tíma með stuðningi löggjafans.
Frumvörpin tóku breytingum eftir að þau komu inn á borð efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis en sumum stjórnarandstöðuþingmönnum fannst ekki nóg gert. Skilyrði hefðu þurft að vera strangari auk þess sem nokkrir þeirra sögðu frumvarpið um greiðslu launa á uppsagnarfresti skapa hvata til uppsagna.
Hún segir að tekið hafi verið tillit til þess að við endurráðningu skuli miða við fyrri ráðningarsamning starfsmanns í stað kjarasamnings. Þannig er ekki hægt að segja upp starfsfólki og ráða það svo aftur á lakari kjörum en það var með áður.
„Nei ég hefði viljað sjá þetta töluvert betra. Mér finnst að stjórnvöld geti sett skýr skilyrði við aðstoð af þessu tagi en þetta var til bóta,“ segir Drífa spurð hvort hún sé ánægð með breytingarnar sem gerðar voru á frumvörpunum.
Samkvæmt frumvarpi fjármálaráðherra til fjáraukalaga er gert ráð fyrir því að kostnaður vegna úrræðisins verði 27 milljarðar króna. Þar er gert ráð fyrir því að hlutabótaleiðin muni á endanum kosta 34 milljarða króna.