Landssamband lögreglumanna lagði fram á sáttafundi hjá ríkissáttasemjara í fyrradag það sem formaðurinn, Snorri Magnússon, kallar leið að lausn „gamalla synda“. Segir hann að samninganefnd ríkisins hafi tekið við þessum hugmyndum og reiknar hann með að heyra viðbrögð hennar í næstu viku.
Það sem Snorri kallar „gamlar syndir“ er bókanir frá síðustu kjarasamningum sem lögreglumenn vilja að verði útkljáðar áður en hægt verður að ræða af alvöru um lífskjarasamninginn. Bókanirnar voru að stærstum hluta gerðar í kjarasamningum lögreglumanna á árinu 2014 en einnig í samningunum 2015. Ekki hafi verið unnið úr þeim.
Snorri segir að bókanirnar snúist um greiðslur fyrir aukna ábyrgð, álag og breytt vinnufyrirkomulag. Sífellt sé verið að auka kröfur til lögreglumanna, á öllum sviðum. „Menn geta ekki endalaust hlaupið hraðar. Það verður að koma til móts við fólk þannig að það fáist til að spretta úr spori,“ segir Snorri í umfjöllun um mál þessi í Morgunblaðinu í dag.