Sjúkraliði fær ekki að vera sjúkraliði

Agnes Veronika ásamt ömmu sinni, Helgu Guðmundsdóttur, sem komst í …
Agnes Veronika ásamt ömmu sinni, Helgu Guðmundsdóttur, sem komst í gegnum Covid-19-sjúkdóminn næstum 103 ára að aldri. Ljósmynd/Aðsend

Agnes Veronika Hauksdóttir, sem nú er leikskólakennari en starfaði sem sjúkraliði á hjúkrunarheimilinu Bergi í kórónuveirufaraldrinum, sótti meðan á faraldrinum stóð um að fá leyfisbréf sem sjúkraliði en hefur ekki haft erindi sem erfiði, eins og hún lýsir í samtali við mbl.is.

Agnes lauk prófi sem sjúkraliði frá Fjölbrautaskólanum í Breiðholti árið 2007 og starfaði eftir það sem slíkur fram til 2011, þegar hún fór að starfa við annað. Þegar kórónuveirufaraldurinn skall á fór hún sem bakvörður til Bolungarvíkur, þar sem meðal annars amma hennar dvelur á hjúkrunarheimilinu Bergi. 

Hún þurfti ekki að framvísa öðru en prófskírteini við komuna en þegar leið á dvölina vildi hún afla formlegs leyfisbréfs frá heilbrigðisyfirvöldum. Eftir langa bið og töf á svörum, var beiðni hennar hafnað 7. maí á þeim forsendum að hún hafi ekki starfað nægilega mikið í greininni frá útskrift.

„Þvílík niðurlæging“

„Það er þvílík niðurlæging að fá ekki leyfisbréfið eftir að hafa verið að vinna þetta krefjandi starf vikum saman og eftir að ég hef bara staðið mig mjög vel í starfinu,“ segir hún. Hún hafi ekki fengið frekari skýringar frá ráðuneytinu en að hún muni ekki hafa viðhaldið þekkingu sinni í greininni með því að starfa í henni.

Það sem ég uppsker er að þriggja ára nám mitt er sagt fyrnt og fékk ég það viðmót að ég væri að vinna undir fölsku flaggi á 2/3 þeirra launa sem ég hefði sannarlega átt rétt á að fá samkvæmt þeirri menntun sem ég svo sannarlega hef. Einu svörin sem ég hef fengið frá landlæknisembættinu eru þau að þeirra ákvörðun standi og að ég þurfi að kæra niðurstöðuna til heilbrigðisráðherra,“ skrifar Agnes í stöðuuppfærslu á Facebook.

Agnes vann á hjúkrunarheimilinu Bergi í Bolungarvík í kórónuveirufaraldrinum.
Agnes vann á hjúkrunarheimilinu Bergi í Bolungarvík í kórónuveirufaraldrinum.

Hertu eftirlit vegna svarts sauðs

Talsmaður landlæknis gat ekki veitt mbl.is frekari upplýsingar um ákvörðunina að svo stöddu en þær sem komu fram í þeirri synjun sem Agnesi barst frá embættinu.

Að sögn Agnesar fór embætti landlæknis að kanna bakgrunn og tilskilin leyfi sjúkraliðanna eftir að upp komst að sjúkraliðinn alræmdi hafi siglt undir fölsku flaggi á Bolungarvík. Þá hafi hún farið að huga að sínu formlega leyfi, en fengið síðan, eins og segir, höfnun þegar hún bað um leyfisbréf. 

Agnes hefur annars ratað á síður íslenskra dagblaða í faraldrinum vegna þess að hún er barnabarn Helgu Guðmundsdóttir, 103 ára íslenskrar konu sem komst í heimsfréttirnar þegar hún sigraðist á Covid-19.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert