Tíu ár af gleði og lífsins lystisemdum

Veitingamennirnir Skjöldur Sigurjónsson og Kormákur Geirharðsson skála í Bríó á …
Veitingamennirnir Skjöldur Sigurjónsson og Kormákur Geirharðsson skála í Bríó á Ölstofunni. Hvorki í fyrsta né í síðasta sinn. Ljósmynd/Baldur Kristjáns

„Í gamla daga var það fyrsta sem maður fékk sér þegar maður kom heim frá útlöndum lítil kók, pylsa og Prins póló. Núna er það Bríó,“ segir Kormákur Geirharðsson veitingamaður.

Tíu ár eru nú liðin frá því bjórinn Bríó var settur á markað. Bríó er hugarfóstur Kormáks og Skjaldar á Ölstofunni og þróaður í samstarfi við Sturlaug Jón Björnsson, bruggmeistara hjá Borg brugghúsi. Margt hefur breyst á þessum áratug og ófáir lítrarnir runnið ofan í landsmenn. Bríó þykir hafa plægt jarðveginn fyrir vinsældir handverksbjórs hér á landi.

Heil meðganga í þróun

„Þetta átti í upphafi bara að vera okkar lókal bjór á Ölstofunni. Ölgerðin var að hætta með umboðið á Grolsch sem var okkar aðalbjór og okkur hugnaðist ekki nein annar bjór sem í boði var. Sem betur fer var Borg brugghús að fæðast á þessum tíma og því var ákveðið að þróa bjór fyrir okkur þar.“

Kormákur segir að þrjár tegundir af bjór hafi verið kynntar veitingamönnunum í upphafi. „Eins og allir bruggmeistarar gera þá komu þeir með IPA og eitthvað blabla. Við sögðumst bara vilja fá lagerbjór en þó ekkert skandinavískt sull. Það yrði að vera hægt að drekka lágmark tíu í röð af honum án þess að verða leiður á honum. Semsagt langdrykkjubjór en hann mátti ekki vera sterkur svo maður yrði ekki of fullur.“

Í hönd fór stíft tímabil prófana þar sem kúnnarnir á Ölstofunni og ýmsir aðrir voru kvaddir til í ráðgjafarstörf. „Þetta voru mjög menningarlegar og hátíðlegar smakkanir. Bruggmeistararnir komu svo á 2-3 mánaða fresti og uppfærðu uppskriftina. Svona gekk þetta í níu mánuði. Þetta var heil meðganga af þessum tilraunum. Ég man nú ekki hvort við gengum eitthvað fram yfir en á endanum vorum við sáttir. Svo hefur þetta barn fengið að vaxa og er nú komið í tveggja stafa tölu. Það líður að því að við förum að ferma.“

Klökkur á enduropnuninni

Kormákur segir að afmælinu verði fagnað með veglegri veislu á næstunni. Ekki sé ólíklegt að gestum í veislunni verði boðið upp á þýskar pylsur og humar með pilsnernum vinsæla. Þá eru uppi áform um að endurhanna umbúðir Bríó. „Á sínum tíma vorum við með samkeppni um hönnun Bríó í okkar stóra kunningjahópi. Nú stendur til að fríska eitthvað upp á útlitið og ég held að hugmyndin sé að fara svipaða leið og halda hönnunarsamkeppni. Ætli við borðum ekki pylsur og skálum í veislunni þegar nýja útlitið verður kynnt.“

Afmæli Bríó bar upp á miðvikudag en þeir félagar tóku forskot á sæluna á mánudaginn en þann dag voru krár opnaðar á ný eftir að slakað var á samkomubanni. „Þetta var alveg rosalegt. Það lá við að maður væri klökkur. Um kvöldið var klappað fyrir hverjum fastagesti sem lét sjá sig. Það voru allir svo ótrúlega glaðir.“

Viðtalið birtist fyrst í Morgunblaðinu 28. maí. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert