96% Íslendinga vilja Biden sem forseta

Joe Biden, sem verður að öllum líkindum forsetaframbjóðandi Demókrataflokksins í …
Joe Biden, sem verður að öllum líkindum forsetaframbjóðandi Demókrataflokksins í forsetakosningunum í nóvember, nýtur stuðnings mikils meirihluta kjósenda á Íslandi, samkvæmt könnun EMC rannsókna. AFP

Um 96% Íslendinga segjast myndu kjósa Joe Biden, hefðu þeir kosningarétt í forsetakosningum í Bandaríkjunum í nóvember. Fjögur prósent segjast myndu kjósa Donald Trump, sitjandi forseta. Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýrri könnun EMC rannsókna. 

Ef aðeins er miðað við þá sem taka afstöðu segjast tvö prósent kvenna og sex prósent karla kjósa Trump. Aðrir myndu kjósa Biden. 

Yngri kjósendur styðja Biden frekar en Trump. Stuðningur við Trump er minnstur meðal kjósenda 35 ára og yngri, um eitt prósent, en mestur meðal kjósenda yfir 55 ára, eða sex prósent. 

29% kjósenda Miðflokksins styðja Trump

Kjósendur Miðflokksins eru líklegastir til að kjósa Trump, eða 29%. Biden nýtur aftur á móti 100% stuðnings hjá kjósendum Viðreisnar, Samfylkingar og Framsóknarflokksins. Tvö prósent kjósenda Vinstri grænna og þrjú prósent kjósenda Pírata styðja Trump, en sjö prósent kjósenda Flokks fólksins og átta prósent kjósenda Sjálfstæðisflokksins. Loks segjast 14% stuðningsmanna Sósíalistaflokksins myndu kjósa Trump. 

Svarendur voru einnig spurðir hver þeir teldu að myndi hafa betur í kosningunum í nóvember og skiptast þeir í tvær nánast jafn stórar fylkingar. 50,1% svarenda telja að Trump verði áfram forseti Bandaríkjanna en 49,9% telja að Biden verði næsti forseti.

Könnunin var framkvæmd 25.-31. maí og var fjöldi svarenda 700. 76% tóku afstöðu til spurningarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert