Efri hæðin á sveitabæ í Borgarfjarðardölum þar sem eldur braust út í nótt er mjög illa farin.
Ekkert er vitað um eldsupptök en ljóst er að þau urðu á efri hæðinni, að sögn Bjarna Þorsteinssonar, slökkviliðsstjóra Borgarbyggðar. Hæðin er illa farin, bæði eftir brunann og vatnið sem var notað í slökkvistarfinu. Svefnherbergin í húsinu voru þar uppi.
Aðspurður segir Bjarni að fólkið sem bjó í húsinu sé á besta aldri og að börnin séu innan við fermingu.
Vinna við að slökkva í glóðarhreiðrum er enn í gangi og er notast við hitamyndavélar til að finna þau. Eftir það verður vatn þrifið út og gólf skafin. Í framhaldinu fær lögreglan vettvanginn í hendurnar og mun hún rannsaka eldsupptök.
Slökkviliðinu barst útkall vegna eldsins í gegnum Neyðarlínuna. Safnað var saman mannskap úr Borgarnesi, Hvanneyri, Reykholti og Bifröst til að slökkva eldinn.