Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) hefur ákveðið að boða til rafrænnar atkvæðagreiðslu meðal hjúkrunarfræðinga sem starfa hjá ríkinu um verkfallsaðgerðir. Samningaviðræður hafa nú staðið yfir í mánuð eftir að kjarasamningur var felldur í lok apríl.
Atkvæðagreiðslan nær til rúmlega 2.500 hjúkrunarfræðinga sem starfa hjá ríkinu. Kosið verður um ótímabundið verkfall hjúkrunarfræðinga sem myndi hefjast kl 08:00 mánudaginn 22. júní næstkomandi, náist samningar ekki fyrir þann tíma. Verði af verkfalli mun það hafa áhrif á allar heilbrigðisstofnanir sem eru í rekstri ríkisins, auk annarra vinnustaða hjúkrunarfræðinga hjá hinu opinbera.
Rafræn atkvæðagreiðsla hefst kl. 20 í kvöld og lýkur kl. 12 föstudaginn 5. júní. Vænta má niðurstöðu úr atkvæðagreiðslunni eftir hádegi föstudaginn 5. júní.